Loðnurannsóknir og loðnuveiðar

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:04:34 (3932)

2004-02-09 15:04:34# 130. lþ. 60.94 fundur 310#B loðnurannsóknir og loðnuveiðar# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að loðnan er með verðmætustu fiskstofnum við Ísland og auk þess er hún undirstöðufæða annarra tegunda, sérstaklega þorsksins. Kvóti íslenskra skipa er nú útgefinn 497 þús. tonn fyrir fiskveiðiárið en var á síðasta fiskveiðiári 765 þús. tonn, þ.e. hann minnkaði um tæp 270 þús. tonn. Meðalveiði okkar árin 1998--2002 nálgaðist 900 þús. tonn á ári svo það eru mikil og váleg tíðindi ef aflinn verður aðeins um 500 þús. tonn á þessari vertíð sem verður þá minnsti ársafli frá árinu 1991.

Veiðar og vinnsla á loðnu er afar mikilvæg efnahag okkar og afkoma greinarinnar og heildarveiði skiptir miklu máli fyrir fjölda sjómanna, landverkafólk, fjölmörg sveitarfélög og fjölmörg fyrirtæki úti um allt land. Við vitum líka að hlýindin í sjónum hafa breytt miklu um göngu loðnunnar undanfarin ár, enda er loðnan kaldsjávarfiskur og sá fiskstofn sem er viðkvæmastur fyrir þessum umhverfisbreytingum. Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðingur hefur sagt að það þurfi að endurskoða skipulag loðnurannsókna og hefur tillaga frá honum legið fyrir í rúm tvö ár. Í framhaldi af þessum orðum vil ég því spyrja hæstv. sjútvrh. hvað líði gerð nýs rannsóknarprógramms hvað varðar rannsóknir og eftirlit með loðnustofninum.

Herra forseti. Það þarf að stórauka fjármuni til Hafrannsóknastofnunar til þessa verkefnis, þ.e. að finna út hvaða breytingar eru að verða og finna leiðir til að ná betri og öruggari mælingum á stofnstærð loðnunnar við Ísland. Við getum ekki leyft okkur neitt slugs í þeim efnum. Við verðum að vita með sem mestri vissu hvað óhætt er að veiða úr loðnustofninum ár hvert. Það er dýrt spaug fyrir íslenskt efnahagslíf ef gengið er á stofninn en það er líka dýrt að veiða of lítið, sérstaklega nú þegar veiðar eru bannaðar í Barentshafi og við sitjum ein að markaðnum ef svo má að orði komast. Allri óvissu verður að reyna að eyða í þessum efnum.

Á fundi hv. sjútvn. í sambandi við fjárlagagerð kom fram hjá forstjóra Hafró að fjárlagabeiðnir stofnunarinnar voru skornar niður um 350 millj. kr. af sjútvrn. vegna fjárlaga yfirstandandi árs. Þegar ég gekk eftir því við forstjórann hvernig það kæmi við stofnunina, hvaða verkefni liðu mest fyrir þennan fjárskort, var svar hans stutt og laggott: Loðnurannsóknir fyrir norðan land og veiðarfærarannsóknir.

Herra forseti. Fjárskortur Hafró og allt of lítið úthald nýja rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar kemur niður á okkur núna hvað það varðar að ákveða með bestu hugsanlegri vissu hversu mikið af loðnu er óhætt að veiða á vertíðinni og það er mjög alvarlegt mál. Þetta staðfestist m.a. í mikilli óvissu og mætti jafnvel kalla það hringlandahátt Hafrannsóknastofnunar og hæstv. sjútvrh. í upphafi þessa árs sem má lýsa svo í stuttu máli:

Útgerðir loðnuskipa beittu sér fyrir og tóku þátt í mikilli og skipulegri leit strax í byrjun þessa árs. Rannsóknarskipið átti að koma á eftir og mæla stofnstærð loðnunnar. Veiðar voru leyfðar í byrjun janúar en síðan stoppaðar frá og með 14. janúar í hálfan mánuð, og loðnuskipum bannaðar veiðar og þeim skipað í land. Rannsóknarskipunum var einnig siglt í land og enginn fylgdist með miðunum. Nokkrum loðnuskipum var síðan leyft að fara aftur á miðin eftir nokkurs konar útdrátt og vakta þau og rannsóknarskipin send þangað á ný eftir viku stopp. Loðnuveiðibannið var síðan stytt um níu daga og það loks fellt úr gildi 20. janúar sl., sem betur fer segi ég.

Herra forseti. Allur þessi hringlandaháttur er tilkominn vegna þess að stofnmælingar frá því í haust mistókust, m.a. vegna þess að haustleiðangurinn fékkst ekki framlengdur vegna fjárskorts stofnunarinnar.

Virðulegi forseti. Ég gat um mikilvægi loðnuveiða og loðnustofnsins í upphafi máls míns. Við Íslendingar getum ekki leyft okkur slíka vanrækslu í sambandi við loðnurannsóknir eins og ég hef tekið dæmi um. Því vil ég í lokin hvetja hæstv. sjútvrh. til að beita sér fyrir auknum fjárveitingum til Hafró svo að stofnunin geti skipulagt nýjar aðferðir með meira úthaldi rannsóknarskipa til að fylgjast með stofnstærð og viðgangi loðnustofnsins. Nú er lag til að auka rannsóknir með álagningu veiðigjalds sem kemur næsta haust. Þess vegna spyr ég:

1. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir auknu fé til loðnurannsókna hvað varðar næstu ár?

2. Verður Hafró gert kleift að halda rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni úti næstu 30--40 daga a.m.k. til að fylgjast með loðnugöngum og þá einnig fyrir vestan og norðan land?

Herra forseti. Við skulum vona að við dettum í lukkupottinn að þessu sinni með nýjum og sterkum göngum fyrir vestan og/eða norðan land. Margir eldri loðnusjómenn telja það líklegt og þess vegna er afar mikilvægt að fylgst sé vel með loðnumiðunum á næstu missirum.