Loðnurannsóknir og loðnuveiðar

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:17:31 (3935)

2004-02-09 15:17:31# 130. lþ. 60.94 fundur 310#B loðnurannsóknir og loðnuveiðar# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. málshefjanda, að loðnuveiðar eru ákaflega mikilvægur atvinnuvegur hér á landi, bæði fyrir starfandi fólk í sjávarútvegi og fyrir þjóðarbúið í heild vegna þeirra tekna sem atvinnugreinin skapar. Það sést líka á því að Alþingi tekur mjög föstum tökum fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar og þeirra málaflokka sem þar heyra undir. Við skulum ekki gleyma því að auk þeirra fjárveitinga sem Alþingi ákveður til Hafrannsóknastofnunar hefur stofnunin fengið verulegt fé úr svonefndum 5% sjóði. Á síðasta ári fékk Hafrannsóknastofnun um 140 millj. kr. umfram fjárveitingar á fjárlögum og það fór að nokkru leyti eða jafnvel að verulegu leyti til rannsókna og þar á meðal loðnurannsókna.

Til marks um það að menn eru vakandi yfir þessu brást Hafrannsóknastofnun mjög skjótt við þeirri gagnrýni sem fram kom um að á skorti um rannsóknir og það var ákveðið að senda loðnurannsóknaskipið til veiða núna í dag, sem bætir verulega úr því sem menn kölluðu eftir.

Í öðru lagi ákvað sjútvn. Alþingis að taka málið fyrir á fundi sínum í morgun og fékk forstjóra stofnunarinnar ásamt Hjálmari Vilhjálmssyni til að fara yfir þetta mál með sjútvn.

Því er alveg ljóst að þessi mál eru tekin mjög alvarlega og hæstv. ráðherra hefur staðið við bakið á Hafrannsóknastofnun í þessu máli.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja áherslu á þá stefnubreytingu sem varð með samþykkt nýrra laga um Verkefnasjóð sjávarútvegsins sem er að opna þennan málaflokk fyrir fleiri vísindamönnum en þeim einum sem starfa hjá Hafrannsóknastofnun. Það er ákaflega mikilvægt á þessu sviði, vísindasviðinu, að aðrir vísindamenn, þeir sem starfa utan ríkisgeirans, eigi aðkomu að þessum málum.