Loðnurannsóknir og loðnuveiðar

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:24:23 (3938)

2004-02-09 15:24:23# 130. lþ. 60.94 fundur 310#B loðnurannsóknir og loðnuveiðar# (umræður utan dagskrár), GHj
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Guðjón Hjörleifsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu um loðnuveiðar og loðnurannsóknir.

Á fund sjútvn. í morgun mættu Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og Hjálmar Vilhjálmsson, leiðangursstjóri loðnurannsókna. Þeir fóru yfir stöðuna í dag, söguna og ýmsar breytingar sem þeir telja að hafi áhrif. Þar má nefna breyttar aðstæður í sjónum en sjór hefur hlýnað mikið, m.a. norðan Vestfjarða, og er töluvert hlýrri en hann hefur verið sl. 25 ár.

Það er mikið fagnaðarefni að hægt var að tryggja viðbótarúthald næstu vikurnar til loðnurannsókna svo að hægt verði að gera áætlun út frá því hve mikið af ungloðnu finnst í þessum rannsóknum.

Virðulegi forseti. Ríkisframlög til rannsókna eru 973 milljónir á þessu ári og með viðbótartekjum, þar með töldum hinum svokallaða Hafrósjóði, eru rúmar 1.100 milljónir til rannsókna. Það er um 20% af heildarframlagi sem fer til rannsókna á uppsjávarfiski. Gert var ráð fyrir að Árni Friðriksson yrði 203 daga á sjó við rannsóknir á þessu ári en vilji stjórnvalda er að úthaldið fari í 220--230 daga.

Loðnuveiðar og loðnuvinnsla er orðin mikilvæg fyrir hinar ýmsu sjávarbyggðir og loðnufrysting og vinnsla á loðnuhrognum eru sá toppur sem hefur átt stóran þátt í jákvæðri afkomu sjávarútvegsfyrirtækja.

Virðulegi forseti. Ég þekki það best sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum til tólf ára hve loðnuveiðar og loðnuvinnsla hafa mikil áhrif á samfélagið. Það kemur glögglega í ljós í rekstri bæjarfélagsins og hafnarsjóðs þegar loðnuveiði gengur ekki eftir sem skyldi.

Virðulegi forseti. Það er eins og með aðrar úthlutaðar aflaheimildir að auðvitað viljum við að þær verði sem mestar hverju sinni. En við þurfum að virða niðurstöður rannsókna og tillögur sérfræðinganna og náttúran á alltaf að njóta vafans. Það hefur verið regla við ákvörðun úthlutunar að skilja eftir 400 þús. tonn af loðnu til hrygningar til að tryggja að stofninn verði ekki í hættu. Allt umfram 400 þús. tonnin er síðan úthlutuð aflaheimild.

Vonandi tekst að ná utan um loðnumælingar ungloðnunnar næstu vikur. Það munar um hvern dag þar til niðurstöður fást og vonandi skila þær jákvæðum árangri.