Loðnurannsóknir og loðnuveiðar

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:33:21 (3942)

2004-02-09 15:33:21# 130. lþ. 60.94 fundur 310#B loðnurannsóknir og loðnuveiðar# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þessa umræðu og öðrum þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni. Hér kemur fram skýr vilji þingmanna úr öllum flokkum fyrir því að við verðum að auka rannsóknir og fylgjast vel með þessum mikilvæga fiskstofni okkar.

Það vakti hins vegar athygli mína þegar hæstv. sjútvrh. sagðist ekki kannast við nýjar tillögur Hjálmars Vilhjálmssonar að nýjum rannsóknum og nýju rannsóknaprógrammi til að fylgjast með loðnu og loðnuveiðum með tilliti til þeirra breytinga sem eru að verða í sjónum. Ef ég hef virkilega heyrt rétt að svo sé, verð ég að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þá virðist mér að sambandsleysi sé mjög mikið milli Hafrannsóknastofnunar og sjútvrn. Er það auðvitað mjög alvarlegt mál ef tillögur frá þessum ágæta fiskifræðingi og sérfræðingi okkar í loðnurannsóknum hafa legið fyrir í 2--3 ár hálfpartinn í salti og séu ekki teknar upp og skoðaðar, það er mjög alvarlegt mál með tilliti til mikilvægis þessara veiða.

Það er staðreynd, virðulegi forseti, að haustmælingar á veiðistofninum hafa mistekist allt frá árinu 1999 að telja og það er m.a. vegna þess að loðnan kemur mjög seint upp að landgrunninu norðan lands, rétt fyrir jól, jafnvel eftir jól þannig að nóvemberleiðangrarnir hafa verið að klikka, ef svo má að orði komast, og mér er kunnugt um að síðasti leiðangur fékkst ekki framlengdur vegna fjárskorts Hafrannsóknastofnunar þegar rannsóknarmenn vildu fara norðar og komast í kaldari sjó. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál.

Ég vil líka, virðulegi forseti, vegna þess að mér fannst hæstv. ráðherra gefa það í skyn að ég væri að gefa í skyn að vísindamenn sinntu ekki sínu verki. Það er alls ekki svo. Ég ber fullt traust til þeirra. Hins vegar þurfa þeir að líða fyrir þann fjárskort sem Hafrannsóknastofnun hefur búið við og hefur komið fram bæði í orðum og kom fram í sjútvn. í morgun að þess vegna hafi þeir ekki gert eins mikið og þeir telja sig hafa þurft.

Herra forseti. Það má eiginlega segja um orð hæstv. sjútvrh. áðan, um að rannsóknaskipið sé að fara út, að orð eru til alls fyrst og áform eru undanfari allra góðra verka.