Loðnurannsóknir og loðnuveiðar

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:35:39 (3943)

2004-02-09 15:35:39# 130. lþ. 60.94 fundur 310#B loðnurannsóknir og loðnuveiðar# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er leiðinlegt að hv. þm. Kristján L. Möller skyldi eyða mestu af ræðutíma sínum í seinni ræðu sinni til þess að misskilja mitt mál. Það sem ég sagði var að ég kannaðist ekki við að það væru nýjar tillögur um það hvernig standa ætti að stofnstærðarmælingum loðnustofnsins. Ég kannaðist við tillögur um frekari rannsóknir á loðnustofninum en ekki um það hvernig standa ætti að stofnstærðarmælingunni. Þetta geta verið tveir ólíkir hlutir sem þarna er um að ræða. Það hefur ekki verið vilji til þess að hætta við haustleiðangrana jafnvel þótt þeir hafi frá 2002 ekki gefið okkur það sem við vildum að þeir gæfu okkur.

Ég held hins vegar að það sé óþarfi hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að vera að tala um einhvern vandræðagang. Sérstaklega nefndi hann síldina en eins og komið hefur fram er hún fundin. Síldin er hins vegar miklu langlífari stofn en loðnan þannig að þó að mæling náist ekki eitt árið þar skiptir það ekki eins miklu máli og með loðnuna, enda hefur það ekki haft áhrif á útgáfu á kvóta.

Hann vildi líka gera það sem vísindamenn telja skynsamlegast. Það er auðvitað rétt hjá honum að við eigum að leitast við að gera það, en eins og staðan er í dag hefur Hafrannsóknastofnunin milli 1.100 og 1.200 millj. kr. á ári til rannsókna og af því fer í dag um það bil 20% í uppsjávarfiskana sem er vel umfram þeirra hlut í verðmæti útvegsins þannig að þeir hafa ekki viljað leggja til aðra útdeilingu en þá sem verið hefur hér að undanförnu.

Hversu lengi á Árni Friðriksson að vera úti? Ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir um það. Það verður auðvitað tekin ákvörðun um það í samræmi við þann árangur sem fæst af rannsóknunum. Varðandi spurningu um fjölstofnaúttekt, þá hefur slík úttekt verið í gangi mörg undanfarin ár og er að vænta niðurstöðu úr stórri rannsókn á þessu ári sem ég geri ráð fyrir að verði mjög athyglisverð og muni nýtast okkur við stjórn fiskveiða, herra forseti.