Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:38:19 (3944)

2004-02-09 15:38:19# 130. lþ. 60.1 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55 10. júní 1998.

Með frumvarpi þessu er lagt til að lögin nái til slátrunar á eldisfiski. Gildissvið áðurgildandi laga, nr. 93/1992, um meðferð og vinnslu sjávarafurða, náði til slátrunar á eldisfiski. Því var hins vegar breytt með setningu núgildandi laga, nr. 55/1998. Þar var orðið ,,slátrun`` fellt brott úr 3. gr. Í greinargerð með frumvarpi því er síðar varð að lögum segir að gildissvið frumvarpsins nái ekki til eftirlits með slátrun eldisfisks þar sem slíkt eftirlit sé á valdsviði embættis yfirdýralæknis en ekki sjávarútvegsráðuneytis. Þessu ákvæði var ekki breytt við meðferð þingsins.

Í ljósi þess að óhapp henti nú nýverið í tengslum við slátrun á eldisfiski og jafnframt kom upp óvissa um það hvar skilin liggja á milli eftirlits embættis yfirdýralæknis og eftirlits Fiskistofu sem fer með eftirlit með afurðum alls eldisfisks var nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um verkaskiptingu og ábyrgð og koma í veg fyrir mögulegan tvíverknað. Var málið tekið til umfjöllunar í fiskeldisnefnd sem yfirfór verkferla og tilhögun með það sérstaklega að markmiði að skerpa ábyrgð á eftirlitinu og koma í veg fyrir tvíverknað og þannig ónauðsynlegan kostnaðarauka við eftirlitið. Er frumvarp þetta í samræmi við álit nefndarinnar og er lagt til að eftirlit Fiskistofu taki til slátrunar alls eldisfisks en þannig næst heildstætt eftirlit með allri slátrun á eldisfiski og vinnsluferlum afurðanna eftir að slátrun er lokið. Jafnframt er lagt til að ráðherra verði fengin sérstök heimild til að setja reglugerð er kveði nánar á um búnað vinnslustöðva er hafi leyfi til slátrunar eldisfisks og um eftirlit með slátrun fisksins.

Herra forseti. Að lokinni 1. umr. legg ég til að frv. verði vísað til hv. sjútvn.