Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:43:11 (3946)

2004-02-09 15:43:11# 130. lþ. 60.1 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um það frv. sem hér er flutt. Hv. þm. Jóhann Ársælsson, samflokksmaður minn í sjútvn., hefur farið hér í gegnum nokkra þætti sem ég ætla ekki að endurtaka heldur aðeins fara yfir það sem snýr að kostnaði við þetta, en í fylgiskjali og umsögn frá fjmrn. stendur hér, með leyfi forseta:

,,Ekki liggur fyrir hvort útgjöld hjá embætti yfirdýralæknis lækki við flutning verkefnisins, en ljóst þykir að útgjöld Fiskistofu gætu aukist eitthvað en það fer þó væntanlega eftir því hvernig verkefnið er skipulagt. Samkvæmt lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða er ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð gjald fyrir þjónustu sem Fiskistofa veitir og verður að reikna með því að hugsanlegur útgjaldaauki verði borinn af tekjum af eftirlitsgjaldi.``

Ég vildi aðeins ræða þetta vegna þess að það er allt of oft þegar verið er að færa verkefni frá einni ríkisstofnun til annarrar að fjármunir virðast ekki fylgja með og í þessu tilfelli get ég ekki ímyndað mér eitt augnablik að embætti yfirdýralæknis hafi ekki haft kostnað af því að fylgjast með þessu á undanförnum árum og þannig sé hjá embætti yfirdýralæknis gert ráð fyrir einhverjum fjármunum í þetta verkefni. Þá hlýtur það að vera eðlilegt að þeir fjármunir muni annaðhvort lækka eða flytjast yfir. Ég vildi aðeins spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort þetta hafi ekki verið skoðað betur vegna þess að það er í raun og veru ekki hægt að una við það alveg steinþegjandi og hljóðalaust og það sé ekki tekið til skoðunar á hinu háa Alþingi við svona mál að kostnaðurinn lækki hjá yfirdýralækni og færist þá yfir til Fiskistofu. Með öðrum orðum eiga ekki að standa eftir ákveðnir peningar hjá yfirdýralækni og síðan verði kostnaðurinn við þetta reiknaður þannig að fyrirtækin sem þurfa á þessari þjónustu að halda verði látin borga eftirlitsgjöld vegna þessa. Var það virkilega ekkert skoðað að þarna mundu fjármunir flytjast á milli eða var það kannski einfaldlega svo að kostnaður yfirdýralæknis eins og hér er gefið í skyn hafi enginn verið og er það þá kannski vegna þess að það hefur ekkert eftirlit verið með þessari starfsemi?