Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:45:58 (3947)

2004-02-09 15:45:58# 130. lþ. 60.1 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Össur Skarphéðinsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. leggur hér fram frv. til þess að skjóta byttu undir leka sem fannst í gildandi lögum sem tengjast eldi.

Mig langar hins vegar í örfáum orðum til þess að nota þetta tilefni til að gera að umræðuefni verkaskiptingu ráðuneyta. Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi það í ræðu sinni áðan að þetta frv. væri til marks um skörun á milli landbrn. og sjútvrn. að því er varðaði fiskeldið. Nú má kannski halda því fram að sú skörun sé að vissu marki leyst með hinni svokölluðu fiskeldisnefnd sem er við lýði. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, hafandi nokkra reynslu eins og hæstv. sjútvrh. af fiskeldi, að það væri langbest fyrir fiskeldi í landinu að það væri allt tekið saman undir eitt ráðuneyti.

Ég er þeirrar skoðunar að allt fiskeldi ætti að vera undir forsjá hæstv. sjútvrh. Þar eru prýðilegar stofnanir sem eru að komast í fremstu röð í ýmsum þáttum sem tengjast eldi og ég tel það ekkert áhorfsmál að það kæmi sér vel og mundi styrkja t.d. Veiðimálastofnun að vera flutt undir sjútvrn.

Ég tel reyndar líka, virðulegi forseti, að varðandi verkefni landbrn. ætti að skoða hvort ekki mætti flytja sum þeirra annað, eins og skólamálin undir menntmrn., og ég skal nú ekki segja, virðulegi forseti, hvar ætti að setja dýralæknana sem eru eitt af því fáa sem þá er eftir fyrir utan búvörusamninginn. En hví mætti ekki skjóta því undir viðskrn. þar sem mér finnst það allt eins eiga heima?

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti, en ég tel sem sagt við hæfi í tilefni af orðum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og þessu frv. að skýra það að það mætti, ef menn vildu gera stjórnsýsluna skilvirkari og ódýrari, allt eins leggja niður landbrn. og koma öllum verkefnum þess fyrir í öðrum ráðuneytum án þess að þau bæru nokkurn skaða af því. Sum þeirra, eins og fiskeldi, fullyrði ég að mundu eflast að þrótti.