Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 15:53:02 (3950)

2004-02-09 15:53:02# 130. lþ. 60.1 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það merkilega við þessa reglugerð sem var gefin út á hátíðisdaginn er að ég hef ekki rekið mig á það enn þá að þar hafi verið framkvæmd ein einasta breyting á Stjórnarráðinu. Ég er sammála hv. þingmönnum um að það er athyglisverður atburður að hann skuli hafa orðið jafn\-fyrir\-ferðarmikill í umræðum í ljósi þess að þar virðist engin breyting hafa verið gerð.

Það kann vel að vera að hv. þingmaður hafi engan sérstakan áhuga á því að færa verkefni undir umhvrn. en ég gruna hv. þingmann hins vegar um að hafa löngun á því að komast í það ráðuneyti, a.m.k. í eitthvert ráðuneyti. Ég leyfi mér að halda því fram.

Ég er ekki að verja hér landbrn. sem slíkt vegna þess að ég telji að þar eigi allt að vera óbreytt, þaðan af síður vegna þess að ég hafi einhvern tíma komið þar við sögu. Ég samþykki það að að mörgu leyti er óhentugt að atvinnugrein eins og fiskeldi sé á tveimur bæjum. Það er ekki þar með sagt að rétta aðferðin sé t.d. sú að leggja Veiðimálastofnun niður eða flytja hana undir sjútvrn. Hún gæti haft aðrar skírskotanir og tengingar til sjútvrn. ekkert síður en til fiskeldisins.

Ég vil gera miklar breytingar á Stjórnarráðinu og ég er alveg tilbúinn til að stofna ný ráðuneyti. Ég er nefnilega ekkert feiminn við að leggja það til. Ég tel t.d. að það eigi að verða til ferðamálaráðuneyti á Íslandi. Mér finnst fullkomlega fjarstæðukennt að önnur stærsta atvinnugrein landsins í formi gjaldeyrissköpunar skuli eiginlega vera hornreka í samgrn. Ég tel að ef við værum að tala um að stofna aftur atvinnuvegaráðuneyti værum við að ræða um þetta á öðrum forsendum en þeim að taka eitt tiltekið atvinnuvegaráðuneyti, þ.e. landbrn., og leggja það niður. Um landbrn. gildir líka nokkur sérstaða að því leyti að auðlindanýtingin er samþætt inni í því ráðuneyti að verulegu leyti. Þar er landgræðsla, skógrækt og fleira í þeim dúr, reyndar fræðslumálin af sögulegum og sérstökum ástæðum. Ég held að við eigum bara að horfa á það eins og það er. Það þýðir ekki að allt þurfi að vera óbreytt en ég held að það hafi verið heldur gamansöm framsetning hjá hv. þingmanni að gera þetta sisona eins og hann fór yfir hér í ræðu sinni um að sundurlima landbrn.