Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 16:02:04 (3953)

2004-02-09 16:02:04# 130. lþ. 60.3 fundur 552. mál: #A Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra# (gjaldtaka o.fl.) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 18/1984, um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, með síðari breytingu. Frv. þetta er samið í heilbr.- og trmrn. í samvinnu við yfirlækni Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra. Minna má á að samkvæmt fyrrgreindum lögum skal stofnunin m.a. annast hvers konar þjónustu við sjónskerta, svo sem sjúkdómsgreiningu, mælingu, úthlutun sérhæfðra hjálpartækja, þjálfun og hvers konar endurhæfingu sem sjónskertir þurfa á að halda. Þar skal jafnframt starfrækja sjónglerjaþjónustu undir stjórn sjóntækjafræðings, halda skrá yfir alla landsmenn sem eru sjónskertir og skráin skal haldin í samráði við landlækni.

Megintilgangur frv. þess sem hér er mælt fyrir er að samræma ákvæði laganna kröfum sem gerðar eru í 77. gr. stjórnarskrárinnar sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, að því er varðar gjaldtöku og veita ráðherra heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Frv. felur ekki í sér aukna gjaldtöku á sjúklinga.

Ákvæði frv. fela í sér eftirfarandi breytingar:

Í 1. gr. eru sett skilyrði um að einstaklingur þurfi að vera sjúkratryggður til að fá þjónustu til samræmis við það sem gildir um sambærilega heilbrigðisþjónustu samkvæmt öðrum lögum hér á landi.

Í 2. gr. er orðalag gert skýrara að því er varðar þátttöku ríkisins í kostnaði við sérhæfð hjálpartæki fyrir sjónskerta. Ákvæðið felur ekki í sér efnislega breytingu frá núgildandi lögum.

Í 3. gr. er verið að gera ákvæði skýrara að því er varðar gjaldtöku fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir. Kveðið er skýrar á um að stofnunin annist þjónustu við einstaklinga sem sjúkratryggðir eru samkvæmt lögum um almannatryggingar og að þeir skuli greiða gjald samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Er talið rétt að sömu skilyrði gildi um þjónustu stofnunarinnar og gildir um aðra heilbrigðisþjónustu. Þá er gert ráð fyrir að þeir sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi greiði gjald fyrir þjónustu stofnunarinnar samkvæmt gjaldskrá ráðherra eins og aðrir sem njóta heilbrigðisþjónustu en eru ekki sjúkratryggðir hér á landi.

Í 4. gr. er nýmæli um að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna, og fellt er á brott ákvæði um að ráðherra setji stofnuninni starfsreglur.

Virðulegi forseti. Ég hef í fáum orðum gert grein fyrir helstu breytingum á lögum um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra. Ég leyfi mér því að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.