Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 16:05:20 (3954)

2004-02-09 16:05:20# 130. lþ. 60.3 fundur 552. mál: #A Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra# (gjaldtaka o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. fullyrðir hér að það eigi ekki að auka gjaldtöku, að hér sé einungis verið að styrkja gjaldtökuheimildir ef ég skil hæstv. ráðherra rétt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra varðandi 2. og 3. gr. hvort verið sé að rýmka heimildir og hvort núna sé í gildi reglugerð varðandi 2. gr. Hér er kallað eftir að ráðherra geti sett reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við sérhæfð hjálpartæki fyrir sjónskerta. Síðan varðandi 3. gr., um hana stendur að það sé talið rétt, með leyfi forseta, að ,,sömu skilyrði gildi um þjónustu stofnunarinnar og um aðra heilbrigðisþjónustu. Þá er gert ráð fyrir að þeir sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi greiði gjald fyrir þjónustu stofnunarinnar samkvæmt gjaldskrá ráðherra``.

Það sem vakir fyrir mér er bara að fá fram hjá ráðherra hvort verið sé að rýmka heimildir, hvort um nokkra nýja gjaldtökuheimild sé að ræða þó að hæstv. ráðherra ætli ekki að beita henni núna. Er verið að opna fyrir nýja gjaldtöku eða rýmri heimildir en ráðherrann hefur? Hver er gjaldtakan nú fyrir þessa sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir?

Annars stóð ég aðallega upp til þess að spyrja hæstv. ráðherra út í þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði barna. Ég hélt satt að segja að þegar hæstv. ráðherra kæmi fram með frv. um breytingu á lögum um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra mundi hann á sama tíma beita sér fyrir því að inn kæmi ákvæði sem heimilaði þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði barna. Við hæstv. ráðherra ræddum þetta mál ekki fyrir margt löngu hér á þingi og hæstv. ráðherra tók mjög jákvætt í það að auka þyrfti þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði barna.

Það er mikill mismunur gerður á þátttöku hins opinbera í kostnaði vegna heyrnarskerðingar annars vegar og sjónskerðingar hins vegar. Í því felst að mínu viti mikið óréttlæti, enda hefur það komið fram hjá Augnlæknafélagi Íslands að vandamál tengd sjón og heyrn séu jafnmikilvæg í læknisfræðilegum skilningi og öll heilsuskerðing varðandi sjón og heyrn er jafnlíkleg til þess að valda þeim einstaklingum sem eiga í hlut erfiðleikum, óþægindum og kostnaði.

Ég hef á nokkrum þingum flutt þingmál um þetta, frumvörp, og eins og ég nefndi hefur ráðherrann tekið mjög undir þörf þessarar breytingar. Ég minni á að varaþingmaður Framsfl. hefur líka flutt þáltill. um þetta mál þegar hann hefur komið inn á þing.

Það er ekki gengið svo langt í því frv. sem ég er með að setja eigi sambærilegar reglur um sjónskerta og heyrnarskerta heldur er einungis um að ræða fyrsta skrefið í þá átt og einungis miðað við þátttöku ríkisins í gleraugnakostaði barna, ekki allra eins og gildir um tæki vegna heyrnarskerðingar. Sú litla þátttaka sem er nú hjá ríkinu er sú að núgildandi lög taka einungis til þeirra sem hafa verri sjón en sem nemur 1/3 af venjulegri sjón með aðstoð bestu mögulegra hjálpartækja og miða þar við skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á því hverjir teljast sjónskertir. Frá þessu er síðan ein undantekning sem ekki hefur lagastoð en fjárveiting hefur verið veitt á fjárlögum til að taka þátt í kostnaði ákveðinna einstaklinga sem hafa þurft á gleraugum að halda í lækningaskyni. Í lækningaskyni hefur í þessum skilningi verið túlkað mjög þröngt og hafa nærsýnir t.d. algjörlega fallið utan þessa flokks. Það er óskiljanlegt að gert sé upp á milli gleraugnanotenda eftir því af hvaða völdum sjónskerðingin er. Það er talið að 12--15% barna yngri en 18 ára þurfi að nota gleraugu. Það eru um 12 þús. börn. Þau börn sem nú fá einhverja aðstoð frá ríkinu gegnum þá þröngu skilgreiningu sem er fyrir hendi í lögum, þá fjárveitingu sem veitt er á fjárlögum sem ekki hefur lagastoð eða endurgreiðslu af læknisfræðilegum orsökum, eru samtals 1.600--1.700 af þessum 12 þús. sem þurfa á gleraugum að halda.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að sjón barna breytist mjög ört og þau þurfa því oft að skipta um gleraugu, ólíkt því sem gildir um fullorðna. Það hvílir auðvitað skólaskylda á börnum, og þeim börnum sem er nauðsyn á gleraugum en fá þau ekki er hættara en öðrum við að lenda í erfiðleikum í námi, jafnvel einelti. Það má benda á að það er þung byrði á barnmörgum fjölskyldum ef kaupa þarf tvenn eða þrenn gleraugu á hverju ári en samkvæmt upplýsingum frá Augnlæknafélagi Íslands er sjónlag ættarfylgja og því algengt að bæði systkini, eða öll, noti gleraugu. Ég held að þessi rökstuðningur sem ég hef sett hér fram og kemur fram í því þingmáli sem ég hef nokkrum sinnum flutt hér á þingi ætti að vera nægjanleg rök fyrir því að ríkisstjórnin fari að huga að þessu máli. Það er óþolandi að það sé verið að mismuna í þeirri aðstoð sem ríkið veitir eftir því hvort um er að ræða heyrnarskerðingu eða sjónskerðingu.

Ég vildi nota tækifærið fyrst hæstv. ráðherra er að bera fram þetta mál, auk þeirra spurninga sem ég hef lagt fyrir hann, að inna hann eftir því hvort ráðherrann hafi eitthvað gert í málinu frá því að hann lét þessi orð falla eftir að við ræddum saman fyrir líklega ári. Þá tók hæstv. ráðherra mjög vel í að athuga þetta mál og ég hef trú á því að hæstv. ráðherra vilji fylgja þeim orðum sínum eftir. Það liggur frv. fyrir Alþingi, og er reyndar á dagskrá þessa fundar síðar í dag, og því er hægur vandi fyrir heilbr.- og trn. að fjalla um málið með því að taka upp ákvæðin í því þingmáli sem ég er með og flytja sem brtt. við þetta frv. Ég spyr hæstv. ráðherra um afstöðu hans til þess.