Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 16:23:40 (3958)

2004-02-09 16:23:40# 130. lþ. 60.3 fundur 552. mál: #A Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra# (gjaldtaka o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf hér og það verður auðvitað rækilega farið yfir það í heilbr.- og trn. hvort hér sé verið að afla rýmri heimilda en verið hafa.

Varðandi það sem fram kom hjá hæstv. ráðherra um það sem ég spurði um og er efnisinnihald þess frv. sem er hér síðar á dagskrá, þ.e. að jafna muninn á aðstoð ríkisins vegna sjónskerðingar og heyrnarskerðingar, heyri ég að hæstv. ráðherrann tekur undir þetta með sama hætti og hann gerði hér fyrir einu eða tveimur árum. Mér heyrist á hæstv. ráðherra að ekki hafi verið mikið gert í málinu síðan þau orð féllu.

Ég verð auðvitað að taka orð ráðherra góð og gild um að vinna sé hafin í ráðuneytinu við að skoða það að minnka misræmið sem er hér um að ræða og auka þá litlu þátttöku sem er núna varðandi sjónskerðingu hjá börnum og skoða aukna þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði.

Hér er um verulegan kostnað að ræða. Þau geta kostað upp undir 30 þús. kr., gleraugu sem börn þurfa á að halda, sem er ærin upphæð og ég tala nú ekki um ef fleiri systkini þurfa gleraugu.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé heppilegra að þingið skoði þetta með jákvæðum hætti þannig að ráðherrann fái þá lagastoð sem hann þarf sem yrði þá sett inn í þetta frv. Þá væri auðveldara fyrir hæstv. ráðherra að ná fram fjármagni til þessa verkefnis á næstu fjárlögum. Það skal ekki standa á okkur að aðstoða ráðherrann við að finna fjárveitingar til þessa. Ég held að margt sé miklu óþarfara sem við greiðum núna í samfélagi okkar heldur en að taka meiri þátt í gleraugnakostnaði barna. Ég spyr ráðherrann hvort hann geti ekki stutt það að við settum lagastoð undir þetta svo að það auðveldaði honum vinnuna í fjárlagagerðinni næsta haust?