Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 16:36:29 (3964)

2004-02-09 16:36:29# 130. lþ. 60.6 fundur 85. mál: #A styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum# þál., Flm. GÖg (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Flm. (Guðrún Ögmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum. Meðflutningsmenn mínir eru Ágúst Ólafur Ágústsson, Dagný Jónsdóttir, Þuríður Backman, Katrín Júlíusdóttir, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Birkir J. Jónsson.

Þáltill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja reglur um styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum. Styrkupphæðir og reglur skulu vera í samræmi við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Íslenskri ættleiðingu skal falið að meta þær umsóknir sem berast og skulu styrkir greiddir eftir að barn er komið til landsins.``

Virðulegur forseti. Hér er um mjög brýnt hagsmunamál foreldra að ræða og löngu tímabært að við skoðum málið heildstætt. Ég verð að segja eins og er, að sjaldan hef ég fengið eins mikil viðbrögð við nokkru máli eins og þessu þegar það kom fyrst fram og eins þegar ég var með það í vinnslu. Hér er líka um talsvert tilfinningamál að ræða.

Það má alltaf ræða um í hvaða formi það eigi að vera, hverjir eigi að sjá um það, hverjir eigi að meta það og hverjir eigi að skoða það, en ég tel afar mikilvægt að Íslensk ættleiðing er þó það félag sem er í rauninni talsmaður þessara einstaklinga og ekki bara það heldur er líka búið að gefa Íslenskri ættleiðingu ákveðna lagastoð í ættleiðingarlögunum. Ráðuneytið vinnur því hvað mest með þeim aðilum þegar verið er að semja við aðrar þjóðir um börn til ættleiðingar hingað til lands. Það er því spurning hvar eigi að koma þessu fyrir varðandi styrkina en það er alltaf opið til umræðu og í rauninni þarf bara að finna lausn sem hæfir öllum.

Greinargerðin tekur á mjög mörgu, aðallega því að á landinu eru um 400 börn og kostnaður við ættleiðingu er mismikill eftir löndum. Hann er í rauninni aldrei undir 1 millj. kr. sem eru gríðarleg fjárútlát fyrir fjölskyldu. Margir hafa viljað meina að þetta sé sá hópur foreldra sem er hvað best staddur í samfélaginu, búinn að koma sér vel fyrir, búinn að prófa allar sínar leiðir, ekki mjög skuldugur o.s.frv. Það sem er hins vegar að gerast og þróunin hefur sýnt okkur, sem ég nefni ekki endilega í greinargerðinni, er að við erum farin að sjá miklu yngri foreldra sækja börn til útlanda. Sá hópur er ekki endilega mjög vel staddur. Það er því spurning um að opna fyrir möguleika á styrkjum. Það þurfa auðvitað ekki allir að sækja um en þetta er spurning um að rétturinn sé til staðar.

Ég lagði fram fsp. sem ég byggði þáltill. á. Þar spurði ég um hvernig ættleiðingum væri háttað annars staðar á Norðurlöndum til í rauninni að fá rök fyrir því að við mundum gera þetta hér á landi. Eftirfarandi kom m.a. fram í svari dómsmálaráðherra, með leyfi forseta:

,,a. Að samkvæmt upplýsingum frá félaginu Íslenskri ættleiðingu eiga kjörforeldrar sem fá börn til ættleiðingar frá öðrum löndum ekki kost á styrkjum vegna ættleiðingarinnar úr ríkissjóði.

b. Að samkvæmt upplýsingum sem gefnar eru á heimasíðum ættleiðingarfélaga í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, svo og samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu, fá kjörforeldrar barna sem ættleidd eru frá öðrum ríkjum fjárstyrki vegna ættleiðinganna fyrir hvert barn sem hér segir:``

Í Danmörku árið 2001: 36.154 danskar kr., en rúmar 38.000 danskar kr. árið 2003. Við erum því að tala um 400 þús. kr. styrki þar.

Í Finnlandi árið 2003: 1.900--4.500 evrur eftir því frá hvaða landi barnið var ættleitt, sem er líka mjög skynsamlegt því að það fer eftir löndum hversu dýrt er að sækja börn. Þar erum við að tala um á bilinu 200--450 þús. kr. styrki.

Noregur hefur verið með tæplega 300 þús. kr. styrki.

Svíþjóð um 450 þús. kr. árið 2002 (í október).

Við erum því að tala um verulega bót fyrir þá foreldra sem eru að fara erlendis að sækja börn.

Það auðgar samfélag okkar að fá börn erlendis frá. Það hefur verið viðkvæmt fyrir suma foreldra að tala um að í rauninni væru þeir að bjarga börnum. Það er frekar viðkvæm umræða meðal kjörforeldra, en hvort sem manni líkar betur eða verr þá er auðvitað verið að bjarga börnum samt. Það er auðvitað yndislegt jafnframt því að eignast barn og gefa því ást að vera líka meðvitaður um að því barni hafi verið bjargað. Það er náttúrlega dásamleg tilfinning.

Það á líka við um börn hér heima sem lenda í erfiðum aðstæðum og komast til góðra foreldra, það er það sama. Það er líka verið að bjarga börnum hér á Íslandi þannig að það er ekki bara erlendis.

Skatturinn hefur ekki komið til móts við þetta heldur. Það má auðvitað skoða fullt af möguleikum í þessu. Ástæðan fyrir því að ég kem með málið núna er til þess að kalla fram athugasemdir og umsagnir til að sjá hvað við getum betur gert. Auðvitað mundi ég gjarnan vilja að ráðuneytið ákveddi þetta sjálft og málið væri í höfn því að ég held að þetta sé afar gott þverpólitískt mál og heyri það á þingmönnum sem ég ræði við, þó að þeir hafi ekki verið flutningsmenn málsins nú á þessu þingi.

Verkalýðshreyfingin er æ meira vakandi yfir þessu. Í greinargerðinni er ályktun frá Verkalýðsfélagi Húsavíkur og fleiri verkalýðsfélög hafa komið að málinu. Sjúkrasjóðir eru farnir að styrkja foreldra sem er afar gott vegna þess að kannski þekkja verkalýðsfélögin kjör síns fólks afar vel.

Ég vil því meina að hér sé um brýnt mál að ræða og við eigum vonandi eftir að sjá fjölgun í ættleiðingum barna erlendis frá, ef til vill líka frá öðrum þjóðum en hingað til. Að þessu máli loknu, virðulegi forseti, óska ég þess að málinu verði vísað til hv. allshn.