Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 17:11:49 (3969)

2004-02-09 17:11:49# 130. lþ. 60.6 fundur 85. mál: #A styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo virðist vera að þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal tekur hér til máls um ýmis málefni, eins og við höfum nú reyndar fundið undanfarna daga og missiri, þá kemur fram einhver allt önnur sýn á mál heldur en velflestir þingmenn hafa og sem gengur og gerist í þjóðfélaginu.

Mig rak í rogastans við að hlusta á ræðu hv. þm. og heyra hvernig hann ræðir um þetta. Hann talar um að fjárhagsleg staða barnlausra hjóna geti verið mjög góð eftir þrjú eða fjögur eða fimm ár eða hvað var nú nefnt. Þá ályktun mátti draga að fólk væri búið að byggja upp það fjárhagslega góðan stofn að því munaði bara ekkert um að leggja út þá peninga sem hér er talað um að gætu numið allt að 1 millj. kr. Ég varð því dálítið hissa þegar ég hlustaði á hvernig hv. þm. talaði um þetta, að mér finnst, á frekar glannalegan hátt vegna þess að það er nú svo, virðulegi forseti, að það eru ekkert allir hér í þessu landi sem geta, jafnvel þó að þeir séu barnlausir í þrjú til fimm ár eða hvað það er, önglað saman 1 millj. kr. í svona mál. Hvað þá með þá sem minna hafa milla handanna og hafa kannski lent í ýmsum kostnaði vegna barnleysis árin þar á undan? Þá eru þessir peningar hreinlega ekki til. Hvað á að gera við þá sem hafa minna milli handanna?