Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 17:14:51 (3971)

2004-02-09 17:14:51# 130. lþ. 60.6 fundur 85. mál: #A styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[17:14]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var reyndar efins um hvort ég ætti að fara í annað andsvar við hv. þm. En vegna þess að ég veit að hann er fljótur að reikna og snöggur að greina tölur langar mig að spyrja hv. þm. hvað fólk þurfi að hafa í tekjur, fyrir utan allan annan rekstur, þar með að kaupa bíl. Barnlaust fólk þarf nú líka að eiga bíl og hér er tekið dæmi um hálft bílverð. Hvað þarf fólk að hafa mikið í laun í eitt eða tvö ár til þess að eiga hreina milljón eftir til þess að geta klofið það sem við erum hér að ræða?

Væntanlega reikna engir þingmenn með því að fjármunir ríkissjóðs komi frá guði almáttugum. Þó margt gott komi þaðan þá er nú ekki svo. En þegar er nú töluverð skattheimta í landinu sem hv. þm. hefur m.a. stuðlað að og samþykkt, t.d. í fjárlögum. Ég er því viss um að mörg matarholan er til til þess að veita úr styrk til málefnis eins og hér er verið að ræða. Það er líka hárrétt að auðvitað verða menn að forgangsraða stundum og velja og hafna. Ég tel að þetta mál sé svo mikið sanngirnismál, svo mikið jafnréttismál, að ekki eigi að bíða með það.

Í lokin, virðulegi forseti, vegna þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hæstv. dómsmrh. sem hér situr og fer með þessi mál líka, kalla ég eftir því að fá að heyra skoðanir hæstv. dómsmrh. Björns Bjarnasonar á þessu máli, hvort þetta komi ekki (Forseti hringir.) dálítið við ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill vekja athygli á því að hv. þm. er í andsvari við hv. 3. þm. Reykv. s. en ekki dómsmrh.)

Já, en ég kalla samt eftir að heyra þær skoðanir hér á eftir.

(Forseti (GÁS): Forseti hefur þegar hlýtt á það.)