Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 17:17:30 (3973)

2004-02-09 17:17:30# 130. lþ. 60.6 fundur 85. mál: #A styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum# þál., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[17:17]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessar umræður og taka þátt í þeim nema fyrir orð ágætra ræðumanna hér að heyra skoðun mína á málinu.

Mín skoðun á því er þessi: Ég hef unnið að því á undanförnum vikum að styrkja forsendur fyrir starfi Íslenskrar ættleiðingar. Gefin hefur verið út reglugerð og reglur um það að hún sé, má segja, það nálarauga sem menn þurfa að komast í gegnum hér á landi til þess að geta ættleitt börn frá útlöndum. Ég lít svo á að fyrsta skylda dómsmrn. varðandi þessa starfsemi sé að gæta þess að farið sé rétt að öllum leikreglum, staðið við alþjóðlega samninga og þess sé gætt að við séum ekki með framgöngu í þessu máli sem getur ýtt undir ólögmæta starfsemi í öðrum löndum. Því eins og hefur komið fram hér þá er þarna annars vegar um það að ræða að það eru mjög strangar, skýrar reglur og alþjóðasamningar sem gilda og hins vegar vitum við að í heiminum er líka talsvert mikið um ólögmæta starfsemi á þessu sviði sem þarf að huga að. Ég lít á þetta sem frumskyldu dómsmrn. varðandi þennan málaflokk og að það sé skylda þess að líta eftir því að ekkert komi upp sem geti veikt stöðu þeirra sem eru hér á landi og vilja ættleiða börn frá útlöndum sem hægt væri að rekja til þess að menn fari ekki nákvæmlega eftir þessum alþjóðlegu reglum og því kerfi sem komið hefur verið upp til hagsmunagæslu fyrir börnin og alla sem að þessum viðkvæmu málum koma.

Síðan er sá þáttur sem við erum að ræða um hér. Og eins og ég sé þegar ég les þessa ágætu greinargerð með tillögunni, þá er birt í lok hennar ályktun frá Verkalýðsfélagi Húsavíkur, þar sem segir, ef ég má lesa, með leyfi forseta.

,,Aðalfundur Verkalýðsfélags Húsavíkur hvetur stjórnmálaflokkana sem bjóða fram til Alþingis og væntanlega alþingismenn til að tryggja að bætt verði aðstaða fólks sem leitast við að ættleiða börn frá útlöndum. Heilbrigðiskerfið tekur þátt í margvíslegum kostnaði vegna barneigna, eins og eðlilegt er, en engar ívilnanir eru veittar því fólki sem leitar eftir að ættleiða barn frá útlöndum eins og gert er í nágrannalöndunum. Þó er ljóst að því fylgir umtalsverður kostnaður og ekki á færi láglaunafólks að fara þessa leið. Þátttaka almannatrygginga í kostnaði við ættleiðingar frá útlöndum hlýtur að eiga að vera sjálfsagður hluti velferðarkerfis, ef það á að rísa undir nafni.``

Það er við þetta sem ég hef staldrað þegar ég velti þessum málum fyrir mér. Er það svo að það sé við því að búast að dómsmrn., sem fer með þessa reglusmíð alla og eftirlit með því að rétt sé og löglega að öllum málum staðið, eigi að koma þessum þætti sem mér finnst verkalýðsfélagið nefna réttilega að sé hluti af velferðarkerfinu, tryggingakerfinu og því kerfi öllu saman sem menn eiga að njóta jafnræðis í? Og er hægt að sýna fram á það að í þessu kerfi njóti menn ekki jafnræðis eftir því hvaðan þeir fá sín börn? Mér finnst að það eigi að nálgast málið frá þessum sjónarhóli með þessi jafnræðissjónarmið í huga sem við erum hér að framfylgja á öllum sviðum.

Þess vegna er ég ekki, þótt ég fagni því ef þessi tillaga verður samþykkt að menn treysti dómsmrh. fyrir að setja þessar reglur, þeirrar skoðunar að það sé í verkahring dómsmrh. Ég tel að það sé miklu nær að líta til þess þáttar sem Verkalýðsfélagið á Húsavík nefnir og velta því fyrir sér hvort það sé svo að menn njóti ekki jafnræðis sem foreldrar barna í velferðarkerfinu og almannatryggingakerfinu eftir því hvaðan barnið kemur, og það sé kannski sá punktur sem menn eigi að nota til að nálgast viðfangsefnið í staðinn fyrir að fela það þeim sem á að fylgjast með reglunum. Því það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að það er ákveðinn þáttur í þessu sem menn verða að passa sig á, að sprengja ekki upp verð, gera ekki neitt sem raskar þessu kerfi. Ég held að velferðarkerfið okkar og almannatryggingakerfið sé það kerfi sem menn eiga að líta til ef þeir vilja láta skoða þetta sérstaklega og það sé kannski ekki skynsamlegast að beina þessu til dómsmrh.