Björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 17:29:24 (3979)

2004-02-09 17:29:24# 130. lþ. 60.2 fundur 514. mál: #A björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn# (vátryggingar) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[17:29]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, nr. 43 24. mars 2003.

Lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn tóku gildi 1. júlí sl. Í 5. gr. laganna er kveðið á um skyldu björgunarsveita til að kaupa slysatryggingar fyrir félagsmenn sína, eignatryggingar fyrir því tjóni sem þær og björgunarsveitarmenn kunna að verða fyrir við æfingar, björgun, leit og gæslu og ábyrgðartryggingar sem ná til tjóns á mönnum, dýrum, munum og umhverfi.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur vakið athygli dómsmálaráðuneytisins á því að ákvæði 5. gr. mun vera of víðtækt og almennt orðað þannig að torvelt reynist að kaupa tryggingar þær sem ákvæðið mælir fyrir um.

Því er lagt til í frumvarpi þessu að ákvæði 5. gr. taki mið af hefðbundnum slysatryggingum, eignatryggingum og ábyrgðartryggingum. Einnig verði kveðið nánar á um einstök atriði í reglugerð, svo sem vátryggingarfjárhæðir.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umræðu.