Skipan nefndar um öryggi og varnir Íslands

Mánudaginn 09. febrúar 2004, kl. 17:30:49 (3980)

2004-02-09 17:30:49# 130. lþ. 60.7 fundur 86. mál: #A skipan nefndar um öryggi og varnir Íslands# þál., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um skipan opinberrar nefndar um öryggi og varnir Íslands. Flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Samf., Þórunn Sveinbjarnardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Rannveig Guðmundsdóttir sem öll eiga sæti í utanrmn. þingsins.

Tillagan felur í sér að kosin verði níu manna nefnd til þess að gera úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á heimsmynd okkar frá lokum kalda stríðsins. Lagt er til að nefndarmenn verði níu og tilnefndir af þingflokkum í samræmi við þingstyrk hvers flokks, þó þannig að hver þingflokkur eigi minnst einn fulltrúa í nefndinni.

Verkefni nefndarinnar eru í fjórum liðum:

1. Að gera úttekt á stöðu Íslands á alþjóðlegum vettvangi og skilgreina þá vá sem kann að steðja að landinu, hvort sem er óbeint af völdum hernaðar annarra ríkja, af hugsanlegum árásum annarra ríkja, af völdum hryðjuverka eða annars konar ógnana eins og mengunarslysum.

2. Að kanna hvernig sams konar úttekt hefur farið fram í nágrannalöndum okkar, þar á meðal í Noregi og á Írlandi þar sem slíkri úttekt er nýlokið. Tilgangurinn er sá að nýta það sem vel er gert.

3. Að greina stöðu Íslands að alþjóðalögum, þ.e. gildi varnarsamningsins, hlutverk Íslands í Atlantshafsbandalaginu og hlutverk Íslands í Sameinuðu þjóðunum.

4. Að gera tillögur um ráðstafanir innan stjórnkerfisins til þess að tryggja nauðsynlegan viðbúnað og öryggi landsins.

Við flutningsmenn tillögunnar leggjum til að nefndin skili niðurstöðum sínum í formi skýrslu til Alþingis innan árs frá samþykkt þessarar tillögu ef af verður.

Virðulegi forseti. Ég hygg að við getum öll verið sammála um að sjálfstæð og framsýn utanríkisstefna á sviði varnar- og öryggismála þarf að taka mið af nýjum ógnum og nýjum hættum sem kunna að steðja að Íslendingum í breyttri veröld. Hún verður líka að vera í samræmi við önnur meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu, t.d. á sviði viðskipta, menningar og þróunarsamvinnu. Tillagan sem við flytjum hér miðar að því að skapa þverpólitíska sátt um hvernig best er að haga öryggis- og varnarmálum landsins. Við flutningsmenn erum þeirrar skoðunar að það verði best gert með því að slík umræða verði með eins upplýstum og uppbyggilegum hætti og kostur er og á grundvelli þess teljum við að slík þverpólitísk nefnd skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka taki til starfa og skili niðurstöðum til löggjafans.

Ég rifja það upp, virðulegi forseti, að árið 1979, fyrir tæpum aldarfjórðungi, skipaði ríkisstjórn Íslands öryggismálanefnd með fulltrúum allra þingflokka. Í skýrslu um utanríkismál frá sama ári segir að verkefni nefndarinnar verði, með leyfi forseta: ,,að afla gagna og eiga viðræður við innlenda og erlenda aðila til undirbúnings álitsgerðum um öryggismál íslenska lýðveldisins``. Þessi öryggismálanefnd, sem oft er vísað til í sölum hins háa Alþingis, starfaði í 12 ár. Í henni sátu átta menn tilnefndir af þingflokkunum og nefndin hafði starfsmenn. Henni var falið að gera ítarlega úttekt á öryggismálum þjóðarinnar og við sem hér sitjum minnumst þess að á vegum hennar voru gefin út mörg grundvallarrit sem lögð voru til grundvallar umræðu um málaflokkinn. Ég held að þau hafi verið ein 20 talsins.

Á undanförnum áratug hafa verið gefnar út skýrslur um ákveðin viðfangsefni í utanríkismálum Íslendinga. Ég rifja það upp að árið 1993 skilaði sérstök nefnd skýrslu um öryggis- og varnarmál til utanrrh. eftir að hafa starfað í tæpt ár. Þá hafa á liðnum sjö til átta árum starfað sérstakar nefndir á vegum utanrrn. um tiltekin viðfangsefni, t.d. um áhrif hnattvæðingarinnar og þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum.

Við flutningsmenn þessarar tillögum erum þeirrar skoðunar að fullt tilefni sé til þess að skipa aðra slíka nefnd með þátttöku allra þingflokka, þverpólitíska nefnd sem rannsakar og metur stöðu Íslands með tilliti til öryggis landsins og varnarþarfa. Eins og við getum séð af reynslu öryggismálanefndar á sínum tíma, þá er hægt með slíku samstarfi að skapa grundvöll fyrir almenna umræðu í samfélaginu og við teljum að með því væri stigið skref í átt frá þeirri átakahefð sem hefur markað íslenska umræðu um þennan þátt utanríkisstefnunnar.

Það má segja að verkefnin fyrir slíka nefnd blasi við hvert sem litið er. Almennt má segja að fólk sé enn að átta sig á afleiðingum loka kalda stríðsins, á nýjum ógnum, t.d. af völdum hryðjuverka. Menn eru líka að átta sig á gjörbreyttum valdahlutföllum á alþjóðavettvangi og, að því er virðist, minnkandi gildi hernaðarbandalaga og vaxandi vægi viðskiptasamninga, að ógleymdum öðrum samskiptum ríkja sem stöðugt fara vaxandi eins og t.d. á sviði menningar.

Á næstu árum stækkar Atlantshafsbandalagið. Evrópusambandið stækkar og mun óhjákvæmilega hafa áhrif á stöðu okkar og hagsmunavörslu gagnvart vinaþjóðum jafnt í vestri og austri. Um leið og NATO stækkar í austur verður staða okkar á vesturjaðri Evrópu sýnilegri og ef til vill erfiðari við að eiga, en eins og kunnugt er hefur aðgerðastjórn Bandaríkjaflota á austanverðu Atlantshafi og þar með yfirstjórn aðgerða á Íslandi, Grænlandi og Azoreyjum verið flutt frá Norfolk í Bandaríkjunum til Stuttgart í Þýskalandi þar sem Evrópuherstjórn Bandaríkjanna situr.

Við vitum líka, virðulegi forseti, að það eru ýmsar viðsjár uppi í þessum efnum. Samningaviðræður við bandarísk stjórnvöld um starfsemi hersins á Keflavíkurflugvelli standa yfir. Það er ekki að heyra að þau séu komin lengra en það sem skilgreina má sem samráðsstig. Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að æskilegt væri að það mál væri til lykta leitt áður en nýr forsrh. tekur við störfum 15. september nk. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess, eins og málum virðist nú háttað, að hæstv. forsrh. verði að þeirri ósk sinni. Því miður virðist eins og það sé einhver sandur í gangvirkinu í þeim efnum. Þess vegna er óhætt að segja að um framkvæmd varnarsamningsins í framtíðinni ríkir óvissa og alveg ljóst að það eru fyrirsjáanlegar breytingar á viðbúnaði Bandaríkjahers hér á landi í náinni framtíð.

Við flutningsmenn teljum sömuleiðis að full ástæða væri fyrir nefndina, ef samþykkt yrði á Alþingi, að skoða stöðu Atlantshafsbandalagsins í ljósi hlutverks þess í deilum og átökum umliðinna missira. Hægt er að færa rök fyrir því að NATO virðist skipta minna máli en áður á alþjóðlegum vettvangi. Það gegndi hvorki hlutverki í stríðinu í Afganistan né í Írak. Í baráttunni gegn margs konar hryðjuverkahópum virðist hlutverk þess líka vera óljóst. Atlantshafsbandalagið er ekki sterk stofnun sem slík en hins vegar óhætt að fullyrða að að því standa feikilega sterk herveldi. Enn sem komið er virðist hins vegar varnar- og öryggisstöð Evrópusambandsins aðallega gegna táknrænu hlutverki og það er merkilegt að fylgjast með því að aðildarríkjunum hefur reynst erfitt að koma á fót hinu 60 þúsund manna hraðliði þrátt fyrir samkomulag þar um.

Staða Íslands í þessari deiglu sem herlauss lands á jaðri Evrópu er sérstök. Hún virðist veik en samt felast í henni tækifæri, jafnt í sérstöðu okkar sem í hefðbundnu samstarfi og einnig á nýjum sviðum og jafnvel í fjarlægum heimsálfum.

Virðulegi forseti. Við flutningsmenn teljum að Ísland hafi margt fram að færa á alþjóðlegum vettvangi, auk þess sem segir sig sjálft, að vera herlaust smáríki, eiga aðild að NATO og vera eitt af auðugustu löndum veraldar. Þess vegna er nauðsynlegt að utanríkisstefnan í heild sinni sé hvort tveggja í senn metnaðarfull og raunsæ.

Á liðnum missirum hefur mikil áhersla verið lögð á þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum. Það er mat flutningsmanna að gera þurfi skýran greinarmun á friðargæsluverkefnum, sem eru í raun verkefni herliðs, og svo uppbyggingarstarfi í kjölfar ófriðar. Fjöldi frjálsra félagasamtaka um allan heim starfar að mannúðarmálum með ýmsum hætti. Samtök eins og Rauði krossinn eru sérhæfð í að veita aðstoð á átakasvæðum eða eftir náttúruhamfarir. Aðrar stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar og þróunarsamvinnustofnanir ýmissa landa eru best til þess fallnar að skipuleggja og standa fyrir uppbyggingarstarfi á sviði menntunar, heilsugæslu og annarra verkefna sem miða að því að styrkja innviði þjóða og ríkja að loknum átökum.

Það má færa rök fyrir því að það sé æskilegt og tímabært að skilgreina verkefni Íslensku friðargæslunnar betur og marka stefnu sem tekur tillit til annarrar starfsemi íslenska ríkisins og líka þess sem skilgreina má sem íslenska mannúðarstarfssemi erlendis. Þá á ég við starfsemi mannúðarsamtaka okkar sem sem betur fer leggja víða gjörva hönd að verki. Við þurfum að breyta þeim hugsunarhætti, ekki síst hjá okkur sjálfum, að Íslendingar séu aðeins að gera eitthvað af því að þrýst sé á það erlendis frá á að Íslendingar leggi sitt af mörkum, t.d. á vettvangi NATO. Við þurfum sem sjálfstæð og fullvalda þjóð sjálf að hafa frumkvæði að aðgerðum í samræmi við stefnu okkar og markmið.

Virðulegi forseti. Við sem flytjum þáltill. teljum löngu tímabært að skoða öryggismál í mun víðara samhengi en við höfum gert. Öryggismál Íslands snúast ekki eingöngu um hvort hér séu táknrænar varnir heldur einnig um það hvað við Íslendingar getum sjálfir lagt af mörkum. Það þarf að sýna frumkvæði en það frumkvæði verður að byggjast á vel ígrundaðri utanríkisstefnu. Við teljum að þverpólitísk nefnd um öryggismál sem fengi það verkefni að meta stöðu Íslands í upphafi 21. aldarinnar væri mikilvægt skref í þá átt. Starf slíkrar nefndar gæti stuðlað að opinni umræðu um þessi mál og vakið æ fleiri til vitundar um mikilvægi þeirra.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þáltill. vísað til hv. utanrmn.