Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 13:36:37 (3984)

2004-02-10 13:36:37# 130. lþ. 61.91 fundur 311#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Vegna svarsins sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason fengu varðandi skattgreiðslur í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar er rétt að minna á að í tengslum við þessar miklu framkvæmdir hafði sveitarfélagið samskipti við Hagstofu Íslands varðandi heimilisfesti erlendra starfsmanna sem kæmu að vinnu við Kárahnjúkavirkjun. Það var samþykkt af hálfu hlutaðeigandi yfirvalda að lögheimilisskráning mætti vera í vinnubúðum á virkjunarsvæðinu.

Nú eru 800--900 manns starfandi á svæðinu. Ég veit ekki nákvæman fjölda þeirra sem vinna hjá fyrirtækinu Impregilo en 80% þeirra eru af erlendu bergi brotnir. Þar af leiðandi er vitað að þarna er fjöldi manns sem hefur ekki lögheimili hér eða hefur alla vega ekki skilað sér til skráningar í sveitarfélagið Norður-Hérað. Útsvar hefur ekki skilað sér af tekjum þessara manna og sveitarfélagið hefur ítrekað beðið um að fá þarna leiðréttingu eða alla vega útskýringar á því hvers vegna málin standa eins og þau eru. Mér finnst það, herra forseti, grafalvarlegt mál ef þetta á að fá að ganga svona áfram. Nógu umdeild er þessi mikla virkjun og þau náttúruspjöll sem af henni hljótast þó að við bætum ekki ofan á þá framkvæmd svívirðu af því tagi sem hugsanlega er hér á ferð, þ.e. að erlend fyrirtæki geti verið með starfsmenn í vinnu og ekki skilað þeim sköttum til ríkisins og sveitarfélagsins sem þeim ber.