Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 13:40:25 (3986)

2004-02-10 13:40:25# 130. lþ. 61.91 fundur 311#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[13:40]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. sem talaði síðast að það er eðlilegt að þingmenn sem eru ósáttir við þau svör sem berast frá ráðuneytum taki það upp hér og krefjist nánari skýringa. Einnig verð ég að taka undir það að eðlilegt væri og betra fyrir okkur ef hæstv. fjmrh. væri á staðnum og við fengjum hans skýringar á málinu.

En varðandi þær fréttir sem hafa verið að berast og þann mun sem er á svörum fjmrn. og fréttum sem koma að austan og við höfum séð í fjölmiðlum núna, sérstaklega undanfarna daga, þá er alveg nauðsynlegt fyrir okkur að taka þetta til umræðu á þingi, taka þetta upp annaðhvort utan dagskrár eða sem sérstakt þingmál, þ.e. skattgreiðslur erlendra einstaklinga sem vinna hér á landi. Ef rétt reynist að þau mál séu í algerum ólestri, algerlega ófrágengin, þá verður ekki við það unað. Það er eðlilegt að sveitarstjórnarmenn og sveitarstjórar á viðkomandi svæði sem hafa borið upp kvartanir sínar til allra aðila eins og fram kemur í fréttum, leiti til okkar um það að málin séu tekin upp og frá þeim sé gengið þannig að um eðlilegar skattgreiðslur sé að ræða til sveitarfélaganna því þarna starfa svo margir erlendir menn.

Fyrir stuttu hlustaði ég á viðtal við Vinnumiðlun Austurlands. Þar kom fram að þeir hafa gert ítrekaðar athugasemdir við það að Íslendingar fái ekki vinnu þarna, að Íslendingar séu ekki ráðnir til vinnu. Og ef það tengist skattamálunum er eðlilegt að það blandist inn í umræðuna hér. Ég tel sjálfsagt, virðulegi forseti, að við tökum þetta mál upp utan dagskrár.