Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 13:58:50 (3994)

2004-02-10 13:58:50# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[13:58]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir gegn fátækt sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samf.

Tillagan felur í sér að ríkisstjórnin grípi til aðgerða til að sporna gegn fátækt og treysta öryggisnet velferðarkerfisins. Í því skyni á samkvæmt þáltill. að skipa nefnd með aðild Sambands íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtaka launafólks. Nefndin skal gera tillögur til úrbóta sem miði við að enginn hafi sér til framfærslu tekjur undir skilgreindum framfærslumörkum.

Það er kveðið á um það í tillögugreininni að sérstaklega skuli höfð hliðsjón af þeim aðgerðum til að vinna bug á fátækt sem lagðar eru til í skýrslu ASÍ, Velferð fyrir alla, frá mars 2003, einkum hækkun atvinnuleysisbóta og lægstu samsettu bóta lífeyrisþega. Minni ég á í því sambandi að ASÍ kynnti þessa skýrslu rétt fyrir kosningar þar sem formenn allra flokka eða forustumenn sátu fyrir svörum og þar voru kynntar sérstakar bráðaaðgerðir sem grípa þurfti til þá þegar að mati ASÍ. Forsvarsmenn flokkanna, sem í mörgum tilvikum voru formenn flokkanna, tóku mjög undir að það þyrfti að framkvæma þessar aðgerðir. Niðurstöðu nefndarinnar ásamt nauðsynlegum lagabreytingum skal leggja fyrir Alþingi á haustþingi 2004.

[14:00]

Það er ástæða til að rifja upp að fyrir 2--3 árum flutti ég ásamt fleiri þingmönnum tillögu um að félmrh. yrði falið að láta fara fram úttekt á umfangi, orsökum og afleiðingum fátæktar á Íslandi með það að markmiði að leggja fram tillögur til úrbóta til þess að treysta öryggisnetið. Þessi tillaga nú er í breyttri mynd. Hún er um beinar aðgerðir gegn fátækt og er við það miðað að frá því að sú tillaga var lögð fram um að gerð yrði úttekt á umfangi, orsökum og afleiðingum fátæktar hafa komið fram margvíslegar upplýsingar sem rökstyðja það að það er töluverð fátækt á Íslandi, því miður. Þessar upplýsingar sem hafa komið frá hjálparstofnunum, stéttarfélögum og félagsþjónustu sveitarfélaga benda til að fátækum hafi líka fjölgað verulega á umliðnum árum. Þar hefur sérstaklega verið vitnað til rannsóknar Hörpu Njálsdóttur félagsfræðings sem rannsakaði fátækt á Íslandi. Þar kemur fram að miðað við lágmarksframfærslu vanti 40 þús. kr. mánaðarlega upp á fullan lífeyri frá Tryggingastofnun til þess að bótaþegar sem ekki hafa aðrar tekjur en bætur ríkisins geti framfleytt sér. Þar er miðað við þá skilgreiningu sem félmrn. hefur sjálft sett fram um brýnasta framfærslukostnaðinn.

Mæðrastyrksnefnd hefur upplýst að t.d. á árinu 2001 fjölgaði þeim um 40% á milli ára sem leita sér aðstoðar og matargjafa og fyrir síðustu jól voru uppi svipaðar tölur, ef ég man rétt. Það hefur líka komið fram að í sívaxandi mæli þurfi að auka fé til fjárhagsaðstoðar sem hefur vaxið gríðarlega á umliðnum árum. Hún jókst um 150 millj. á þarsíðasta ári og milli áranna 2001 og 2002 jókst hún um 48%.

Það er líka athyglisvert, virðulegi forseti, að ef skoðaður er norrænn samanburður á fátækt kemur fram að þeir sem búa við fátækt eru hlutfallslega flestir á Íslandi. Mæling 1997--1998 sýndi að um 6,8% búa við fátæktarmörk á Íslandi. Í Danmörku eru það 5,3%, Finnlandi 4,1%, Noregi 3,5% og Svíþjóð 4,9% á móti 6,8% hér á landi. Skýringin sem menn sjá á vaxandi fátækt er m.a. sú að jöfnunarmarkmið velferðarkerfisins hafa vikið. Kerfið er orðið fullt af fátæktargildrum og mikil tekjutenging hefur breytt kerfinu nánast í ölmusukerfi eins og haldið hefur verið fram, m.a. af Stefáni Ólafssyni hjá Félagsvísindastofnun.

Í leiðbeiningum félmrn. frá 1996 sem ég nefndi áðan kemur einmitt skýrt fram hvaða þættir eru álitnir nauðsynlegir einstaklingum til að geta framfleytt sér. Þar er gert ráð fyrir að lágmarksfjárþörf fólks miðist við þann lágmarksframfærslukostnað sem ætlaður er einstaklingum eða fjölskyldum til að lifa af. Sömuleiðis er bent á að árið 2001 voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar þar sem lágmarksframfærsla var ítrekuð og að hlutverk almannatrygginga væri að vera öryggisnet sem byggðist ekki á skilgreindum réttindum heldur tæki mið af framfærslu. Það er ástæða til að vekja athygli á því að hér á Alþingi var fyrir nokkrum árum, sennilega þremur, samþykkt till. til þál. sem ég flutti um að gerður yrði neyslustaðall. Sú tillaga hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að gera könnun á notkun neysluviðmiðana í nágrannalöndum Íslendinga við ákvarðanir er lúta að fjárhæðum bóta og styrkja í velferðarkerfinu, við mat á greiðslugetu við innheimtu vangoldinna opinberra gjalda og meðlagsgreiðslna og við ákvarðanatöku við lánveitingar úr opinberum sjóðum, svo sem lánasjóðum námsmanna og íbúðalánasjóðum. Enn fremur verði lagt mat á hvort ástæða sé til að samræma slíkar neysluviðmiðanir hér á landi, notkun þeirra eða aðferðir við gerð þeirra.`` --- Slíkir neyslustaðlar eru þekktir víða í nágrannalöndum okkar og þar er einmitt stuðst við slíka neyslustaðla og neysluviðmiðanir þegar verið er að ákvarða ýmsar bætur innan velferðarkerfisins. Því miður hefur framkvæmdarvaldið ekki farið að þessari tillögu sem þó var samþykkt samhljóða hér á þingi.

Ég vitnaði áðan, virðulegi forseti, í skýrslu ASÍ þar sem bent er á hverjar séu helstu ástæðurnar fyrir aukinni fátækt. Þar er tilgreindur mikill húsnæðiskostnaður og skortur á félagslegu húsnæði. Það er enn einu sinni að koma í ljós hvílíkt óþurftarverk það var af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið og í stað þess tóku við viðbótarlánin svokölluðu með miklu hærri vöxtum en voru í gamla félagslega húsnæðiskerfinu. Þar voru 2,4% vextir en í viðbótarlánunum eru vextirnir 5,6% og að því er varðar leiguhúsnæði voru vextir hækkaðir úr 1% upp í allt að 4,9%. Það er líka ljóst, virðulegi forseti, og það hefur komið fram að húsaleigubætur hafa hækkað verulega sem sýnir hvaða afleiðingar þær hafa haft, þessar vaxtahækkanir, og nú er svo komið að sveitarfélögin eru að óska eftir endurskoðun á samskiptum ríkis og sveitarfélaga í þessu máli og telja sig hafa verið hlunnfarin þegar gert var samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga að því er varðar húsaleigubótakerfið fyrir sennilega 2--3 árum. Þau segja hér, með leyfi forseta:

,,Samband íslenskra sveitarfélaga hefur óskað eftir formlegum viðræðum við stjórnvöld um fjármögnun og framtíð húsaleigubótakerfisins, en framlag ríkisins vegna húsaleigubóta nemur nú um 40% af greiðslu bótanna en nam áður allt að 58%. Hlutur sveitarfélaganna í greiðslu bótanna hefur því vaxið úr rúmum 42% í 60% á undanförnum árum.``

Þau vitna til þess að á þessu ári vanti um 200 millj. kr. til þess að greiðsluhlutfall ríkisins væri 55% eins og um var samið á sínum tíma. Þetta er auðvitað bein afleiðing af m.a. vaxtahækkuninni.

Síðan bendir ASÍ á skort á menntun, hátt verðlag á nauðsynjavöru, svo sem lyfjum og heilbrigðisþjónustu, uppsafnaðan fjárhagsvanda sem leiðir til þess að margir missa fótanna og lenda í vítahring fátæktar. Sérstaklega er talað um lágar atvinnuleysisbætur þeirra sem búa við langtímaatvinnuleysi. Það er vitað að sú viðmiðun sem var breytt á árinu 1995 hefur leitt til þess að atvinnuleysisbætur eru 15 þús. kr. lægri á mánuði en þær ella væru ef viðmiðið frá 1995 hefði fengið að halda sér þannig að það er verið að hafa af atvinnulausum um 180 þús. kr. á ári. Atvinnuleysisbæturnar þarf einmitt að skoða sérstaklega og það er mjög brýnt, herra forseti, að hækka þær verulega.

Síðan benda þau á félagslega stöðu margra einhleypra karla en þeir eru stærsti hópur þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, eru oft atvinnulausir og skulda margir hverjir meðlög sem eru meiri en þeir ráða við. Síðan er bent á lágar bætur og miklar tekjutengingar sem valda því að þeir sem að öllu eða mestu leyti þurfa að treysta á bætur sér til framfærslu búa við mjög kröpp kjör.

Það sem er auðvitað alvarlegt og hefur komið fram á undanförnum mánuðum og missirum er að vinnandi fólk þarf í auknum mæli að leita sér aðstoðar þó að það sé fullvinnandi. Í hópi fátækra eru einkum öryrkjar og aldraðir, einstæðir foreldrar, einstæðingar og barnmargar fátækar fjölskyldur og við sjáum glöggt hvernig öryggisnet velferðarkerfisins hefur brostið á því að stöðugt fjölgar í hópi þeirra sem hafa ekki efni á að leita til læknis eða leysa út lyfin sín. Það er orðið áberandi að læknar vísa fólki til sérfræðinga eða í rannsóknir en það skilar sér ekki þangað. Það hefur gengið svo langt að fólki sem hvorki á fyrir lyfjum né mat, t.d. mörgum þeirra sem lifa þurfa á lífeyri almannatrygginga eða sambærilegum tekjum, er gert að greiða skatt til samfélagsins sem samsvarar mánaðarlífeyrisgreiðslum. Það er einmitt þetta sem við höfum viljað taka á, hvernig verið er að skattpína fátækt fólk sem á ekki einu sinni fyrir brýnustu framfærslunni.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka hér og ég fagna því að hæstv. félmrh. er viðstaddur þessa umræðu. Við áttum orðaskipti um fátækt á Íslandi í októbermánuði þar sem ég lagði fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra um hver væri niðurstaðan af starfi ráðherranefndar um fátækt sem skipuð var að tilhlutan fyrrv. félmrh. og hafði það verkefni að skilgreina vandann sem við er að etja vegna fátæktar og finna leiðir til úrbóta. Þessi nefnd var skipuð í janúarmánuði eftir mikla umræðu í þjóðfélaginu um fátækt þannig að hún hefur starfað í rúmt ár. Í svari hæstv. ráðherra í októbermánuði kom fram að drög að skýrslu þessa starfshóps lægju fyrir en eftir væri hins vegar að leggja á hana lokahönd og hér vitna ég orðrétt í hæstv. félmrh. í októbermánuði sl., með leyfi forseta:

,,Í skýrslunni mun m.a. verða greint frá leiðum til úrbóta. Ég get hins vegar því miður ekki gert nánari grein fyrir störfum hópsins hér og nú. Þessi skýrsla er væntanleg um miðjan næsta mánuð, þá gefst okkur kostur á að greina nánar frá þeim upplýsingum sem hópurinn hefur tekið saman og tillögum hans til úrbóta.``

Sem sagt, hæstv. ráðherra boðaði það að um miðjan nóvembermánuð yrðu þessar tillögur tilbúnar og þær yrðu þá kynntar hér í þinginu, þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur til úrbóta í málefnum fátækra.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra taki því þátt í þessari umræðu og greini okkur frá því hvort niðurstöður séu nú ekki fengnar þegar við erum komin inn í bráðum miðjan febrúarmánuð þannig að hægt sé að fara að vinda sér í það þarfa verk, herra forseti, að ná fram úrbótum fyrir fátækt fólk á Íslandi. Og það er ástæða til, herra forseti, að vitna til þess að forseti Íslands sá meira að segja ástæðu til þess í aðventuávarpi í Dómkirkjunni fyrir jólin að segja að fátæktarumræðan sem orðið hafi í þjóðfélaginu hefði engu skilað, heit hefðu verið gefin en ástandið batnaði ekki, sagði forsetinn, enn biði fólk í röðum eftir mat og aðstoð og við vildum ekki að íslensk jól væru tími ótta og örvæntingar, þrautagöngu og erfiðleika. Og hér segir forseti íslensku þjóðarinnar, með leyfi forseta:

,,Ungar mæður standa í biðröð til að geta fengið poka með matargjöfum, karlmenn á góðum aldri leita bónbjargar, aldraðir í einveru, umkomulausir sjúklingar sem eiga ekki fyrir lyfjum.``

Þetta eru ekki góð meðmæli með íslenska velferðarkerfinu, þessi orð sem höfð eru eftir forseta íslensku þjóðarinnar, en ég vona að hæstv. félmrh. geti greint frá því í þessum ræðustól að hann hafi tillögur til úrbóta í málefnum fátækra sem verði hrint í framkvæmd fljótlega. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. félmn.