Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 14:14:25 (3995)

2004-02-10 14:14:25# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hefja máls á þessu þarfa umfjöllunarefni á Alþingi og vil gera grein fyrir því sem reyndar var spurt um. Á undanförnum missirum hefur vissulega verið að störfum samráðshópur með fulltrúum forsrn., félmrn., fjmrn. og heilbr.- og trmrn., hópur sem hefur unnið að skýrslugerð sem nú er verið að leggja lokahönd á. Skýrslan hefur verið unnin á forræði forsrn. og forsrh. mun gera grein fyrir niðurstöðum hennar innan skamms. Ég get þó upplýst við þessa umræðu að í skýrslunni er leitast við að skilgreina fátækt. Það er greint frá tekjudreifingu þjóðarinnar í 10 flokkum, frá þeim sem hafa lægstu tekjurnar til þeirra sem hafa hæstar á ákveðnu árabili, skipt eftir einstaklingum, einstæðum foreldrum og hjónum eða sambúðarfólki og enn fremur er gerð grein fyrir ráðstöfunartekjum þeirra sem minnstar tekjur hafa til framfærslu. Að lokum eru lagðar til í skýrslunni leiðir til úrbóta.

Hæstv. forseti. Ég tel að sú skýrsla sem ég geri hér að umfjöllunarefni og forsrh. mun gera grein fyrir á næstunni muni verða gagnlegt innlegg í þá umræðu sem hér hefur verið hafin og við þurfum stöðugt að hafa uppi.

Vegna þess að í máli hv. þingmanns komu fram áhyggjur af atvinnuleysisbótum og þróun þeirra mála vil ég líka nefna að vonandi í þessari viku verður sent frá félmrn. bréf til hagsmunaaðila þar sem óskað verður eftir tilnefningum í nefnd sem á að fara yfir atvinnuleysistryggingalöggjöf okkar og vinnumarkaðslöggjöf með það að markmiði að laga lög okkar að breyttum aðstæðum. Hækkun bótanna verður vissulega eitt af því sem þar kemur til umfjöllunar, enda rétt að atvinnuleysisbætur hafa ekki þróast með sama hætti og aðrar bætur.