Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 14:20:09 (3998)

2004-02-10 14:20:09# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. félmrh. notar nærri sömu orð núna í síðustu ræðu sinni og hann gerði í október. Hann sagði hér í október: ,,Fyrir liggja drög að skýrslu þessa starfshóps, eftir er hins vegar að leggja á hana lokahönd.``

Það virðist sem sagt ekkert hafa gerst frá því í október. Það veldur auðvitað miklum vonbrigðum hve hægt gengur að vinna að þessum brýnu málum sem við ræðum hér.

Auðvitað er það svo að aðilar vinnumarkaðarins eiga að koma að lagfæringum á löggjöf um atvinnulausa. En núna fyrst er verið að skipa þessa nefnd, og ég held að allir séu sammála um það og ég er viss um að hæstv. ráðherra er það líka að atvinnuleysisbætur eru hér allt of lágar, 77 þús. kr. Það er ekki hægt að framfleyta sér af þessum peningum. Við erum að tala um að bara húsaleiga fyrir þá sem eru á leigumarkaðnum slagar oft hátt upp í þessa fjárhæð.

Það er því auðvitað engin ástæða til þess að bíða með að hækka atvinnuleysisbæturnar, en ekki að þurfa að bíða eftir því að nefnd ljúki störfum sem guð má vita hvað tekur langan tíma.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það sem kom fram líka í Morgunblaðinu nýlega, um húsaleigubæturnar sem eru að blása út, hvort ekki megi vænta þess að á því verið tekið af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar greiðslur sveitarfélaganna hafa aukist verulega vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar að leggja niður félagslega kerfið og hækka vexti. Það eru beinlínis aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem leitt hafa til þess að húsaleigubæturnar hafa blásið út og að hlutur sveitarfélaganna er þar orðinn miklu meiri en ráð var fyrir gert í því samkomulagi sem ríkið gerði við sveitarfélögin.