Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 14:52:02 (4009)

2004-02-10 14:52:02# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að vera með hrósyrði til hv. þm. Drífu Hjartardóttur. Mér finnst hún mjög ötul fyrir flokkinn sinn, og ötul yfirleitt að koma hér sem stuðningsmaður ríkisstjórnar sinnar og bera í bætifláka fyrir hana. Við eigum ekkert miklu að venjast af því hjá almennum þingmönnum stjórnarliðsins hér og ég tek ofan fyrir henni vegna þess.

Hv. þm. Atli Gíslason var áðan að lýsa fyrir okkur hverju hann kynntist í starfi sínu, m.a. hjá fólki sem er á atvinnuleysisbótum og er á þessum allra lægstu kjörum. Og ég er að tala um aðbúnað barna, uppvöxt barna. Hvernig halda menn að kjör barna séu í fjölskyldum þar sem fólk er á atvinnuleysisbótum og lifir jafnvel við hungurmörk? Ég tala nú ekki um að við erum að tala hér um langtímaatvinnulausa og það var það sem ég gerði að umtalsefni áðan varðandi félmrh. enda móttók ég bara ljúflega upplýsingarnar um heildarstefnumörkun barna.

Unga fólkið sem er á atvinnuleysisskrá er ekki unga fólkið sem er að vinna með skólanum. Það er ekki unga fólkið sem vinnur nokkra tíma á viku í sjoppu eða í kjörbúðunum eða hvar það nú er. Þetta er ungt fólk sem er á atvinnuleysisskrá. Það er ekkert að gera, það er ekki í skóla.