Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 14:53:51 (4010)

2004-02-10 14:53:51# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. flm. þessarar þáltill., Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir yfirgripsmikla og ágæta yfirferð yfir stöðu mála um bæði orsakir og mögulegar aðgerðir gegn fátækt.

Þá var upplýsandi og fróðlegt að hlusta á prýðilega jómfrúrræðu hv. þm. Atla Gíslasonar þar sem bæði var mælt af hugsjón og þekkingu og urðum við, áheyrendur að þeirri ágætu ræðu, ýmiss vísari um þau mál.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór ágætlega yfir þennan undarlega skammarblett sem fátæktin er á samfélagi okkar, mitt í peningaveislunni miklu sem hefur staðið yfir hjá hluta samfélagsins, stórgróðafyrirtækjunum og einkavinum ríkisstjórnarinnar, þeim sem hafa fengið að sitja að einkavæðingu ríkisfyrirtækjanna á undanförnum áratug eða svo. Á meðan hafa hópar fátækra í samfélaginu stækkað, að því er virðist og tölur sýna og sanna, og fátæktin virðist hafa með ýmsum hætti versnað, orðið sárari og verri en áður þekktist. Mörg eru líka dæmin úr skólum af hrikalegri eiturlyfjaneyslu unglinga, eða barna held ég að réttara sé að segja, og dapurt er til þess að vita hvernig eymdin og neyðin hefur fært sig neðar og verður ávallt sýnilegri í grunnskólunum þar sem hún ætti að vera hvað ósýnilegust og fjarlægust. Þetta kom hv. flm. ágætlega inn á. Eins og kemur fram í greinargerð sýna tölur, frá mæðrastyrksnefnd t.d., að aðstoð vegna matargjafa hefur aukist um 40%. Það er sláandi staðreynd þar sem það hlýtur að vera ótrúlega niðurlægjandi og dæmalaus staða að þurfa að leita á náðir fátæktarsamtaka til að fá mat ofan í sig og sína, og sérstaklega eins og fram hefur komið að þarna er oft um að ræða ,,venjulegt fólk``, fólk sem við mundum aldrei gera okkur í hugarlund að þyrfti að niðurlægja sig með því að leita sér svona aðstoðar. En þessi er staðan.

Ef rýnt er í samanburðartölurnar á milli Norðurlandanna kemur í ljós að hér eru þeir sem búa undir fátæktarmörkum hlutfallslega langflestir. Sker í augu að skoða samanburðinn t.d. á milli Íslands og Noregs þar sem þessi tala í Noregi er 3,5% en á Íslandi 6,8%. Ótrúlegt eftir áratug peningaveislunnar ógurlegu og þess mikla hagvaxtar sem ríkisstjórnir Framsfl. og Sjálfstfl. stæra sig gjarnan af, ótrúlegt hvernig ríkisstjórn hinna marglofuðu en margsviknu skattalækkana stærir sig af hagvexti og skattalækkunum en þó er staðan sú að fátækt hefur aukist til muna.

Þá komum við að þeim aðgerðum sem lagðar eru hér til svo að vinna megi gegn fátæktinni til langframa. Margt er gott lagt til en ég ætlaði sérstaklega að staldra við eitt atriði sem kemur fram í tillögunni og var einnig lagt fram í tillögu ASÍ, Velferð fyrir alla, í mars 2003. Tillagan lýtur að menntamálunum. Það meðal sem við höfum og vinnum hvað róttækast og til langframa með gegn fátækt er aukin menntun, hærra menntunarstig. Þar með búa fleiri og fleiri við öryggi og frekari ávísun á bærileg störf og aukna flóru starfa. Grunnhugmyndin er menntun, einhvers konar framhaldsmenntun, hvort sem það er starfsmenntun eða styttri námsbrautir. Erum við, nokkrir þingmenn Samf., undir forustu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, að vinna að slíkri þáltill. sem ber heitið Nýtt tækifæri til náms. Þar munum við leggja til að Alþingi álykti að fela menntmrh. að semja greinargerð fyrir þingið um áætlun í átaki í menntun þeirra sem ekki hafa lokið námi á grunn- eða framhaldsskólastigi. Markmið okkar með því er að hækka menntunarstig þjóðarinnar, skapa nýtt tækifæri til náms og auðvelda fólki að taka upp þráðinn í náminu þar sem frá var horfið. Við leggjum til að við undirbúning og framkvæmd verði haft samráð við aðila vinnumarkaðar, samtök sveitarfélaga, Vinnumálastofnun, Atvinnuleysistryggingasjóð og fleiri sem málið er mjög skylt.

Með slíku sérstöku átaki innan menntakerfisins opnast einmitt þeim hópi sem er kannski viðkvæmastur fyrir hvers konar sveiflum og ágjöfum í samfélaginu nýtt tækifæri. Þessi hópur er viðkvæmur fyrir því að þurfa að þiggja atvinnuleysisbætur sér og sínum til framfærslu og lenda þar með í þeirri sáru neyð sem fátæktin er. Fólk þarf ekki að vera lengi á atvinnuleysisbótum einum saman til að festast í fátæktargildrum enda duga bæturnar, eins og hér hefur komið fram, hvergi nærri til framfærslu og hvað þá til að halda í við fyrri skuldbindingar, framfærslu barna sinna og fjölskyldna. Svo ömurlega er komið fyrir þeim sem lenda í atvinnuleysinu í tíð hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsóknum Hagstofunnar sl. ár eru um 30% starfskrafta á vinnumarkaði með grunnskólapróf eða minni menntun og þetta er markhópur umrædds átaks sem við munum leggja upp með á næstunni. Hluti þessa hóps er svokallaður brottfallshópur úr framhaldsskóla sem talinn er vera allt að 33% af árgangi. Það bendir til þess að þörf sé á nýju tækifæri til náms, til hliðar við hina formlegu framhaldsskólamenntun með starfsmenntun og sínum hefðbundnari styttri námsbrautum og framhaldsnámi. Það er illgjörlegt að lokka þennan hóp inn í framhaldsskólana og ekki hægt að ætlast til þess að hann fari þangað aftur löngu seinna til að taka upp þráðinn.

Þess vegna leggjum við þetta sérstaka átak fram og er það nátengt því átaki sem hér er verið að ræða, um aðgerðir gegn fátækt. Þannig vinnum við gegn fátækt til frambúðar, með því að auka menntunarstigið og þar með tækifæri fólksins í landinu til að afla sér nýrrar þekkingar, nýrra starfa, nýrrar tryggingar gegn hvers konar ágjöfum í efnahagsmálum eða atvinnumálum þjóðarinnar og ekki síst meira sjálfstrausts til að fara sjálft af stað og skapa sér sín eigin nýju tækifæri.

Þessi umræða hefur, virðulegi forseti, verið ákaflega gagnleg og í sjálfu sér er ánægjulegt að sjá og heyra hve margir þingmenn hafa blandað sér í hana, enda um eitt af brýnustu samfélagsmálum okkar tíma að ræða.