Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:09:17 (4013)

2004-02-10 15:09:17# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Gunnar Örlygsson:

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um aðgerðir gegn fátækt. Í greinargerð tillögunnar er vitnað í nýlega rannsókn Hörpu Njálsdóttur félagsfræðings sem rannsakað hefur fátækt í íslensku samfélagi. Einnig fylgir með tillögunni nokkuð ítarlegur útdráttur úr skýrslu Alþýðusambands Íslands, Velferð fyrir alla.

Hér er ekki á ferðinni ítarleg rannsóknarvinna af hálfu flutningsmanna heldur er alfarið stuðst við rannsóknarvinnu þeirra aðila sem áður hefur verið getið um. Þó vil ég lýsa yfir ánægju minni á framtaki flutningsmanna tillögunnar.

Samanburðartölur frá OECD eru vinsælt umræðuefni stjórnarliða fyrir kosningar. Ísland er á lista yfir ríkustu þjóðir heims samkvæmt útreikningum OECD. Aldrei, herra forseti, heyrði ég nokkurn stjórnarliða tala um fátækt á Íslandi í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Staðreyndin er sú að fátækt á Íslandi er meiri en í nokkru öðru ríki á Norðurlöndunum.

Virðulegi forseti. Þeir sem í þessum sölum sitja fengu kauphækkun upp á rúmar 40 þús. kr. daginn eftir kosningar hinn 10. maí sl. Í skýrslu Hörpu Njálsdóttir kemur fram að 40 þús. kr. á mánuði vantar upp á fullan lífeyri frá Tryggingarstofnun miðað við lágmarksframfærslu til þess að bótaþegar sem ekki hafa aðra framfærslu eða tekjur geti framfleytt sér.

Öllum mönnum sem fæðast með ákveðna hæfileika sem síðar nýtast þeim í lífinu ber að þakka vöggugjöfina. Þakkirnar eiga að endurspeglast í verkum og metnaði til handa okkar minnstu bræðrum og systrum.

Á 18. eða 19. öld var hugmyndinni að velferðarkerfi fyrst kastað fram. Vandinn var skýr á þessum tímum. Aldraðir áttu bágt, öryrkjar áttu bágt, í raun áttu allir sem ekki voru vinnufærir bágt. Út frá þessu ástandi kom hugmyndin um velferðarkerfið fram.

Mér þykir það miður að íslenskir þegnar sem gjarnan er kenndir við ótrúlega samhjálp og mikla samvinnu þegar illa gefur á bátinn skuli lúta valdi núverandi ríkisstjórnar. Ríkisstjórnir núverandi stjórnarflokka hafa brugðist fátækum Íslendingum. Á meðan auðæfi ákveðinnar stéttar vaxa úr hófi fram, daprast hagur annarra til muna. Áherslurnar eru greinilega rangar. Sem dæmi get ég tekið útgjaldaaukningu ríkissjóðs til utanríkismála en útgjöld til utanríkismála hafa aukist um marga milljarða á undanförnum árum. Hallir eru reistar, marmari lagður, ný störf diplómata eru sköpuð, ríkisfyrirtæki eru seld til einkavina núverandi stjórnarafla á gjafvirði, en fátæktin heldur áfram að aukast í íslensku samfélagi.

Sumir hafa gengið svo langt að vilja ekki viðurkenna fátæktina í landinu. Eru þar jafnan á ferðinni jarlar sem hugsa fyrst um eigin hag og framtíð. Það er skylda okkar allra að viðurkenna vandann og leita góðra leiða svo framfærslu okkar verst settu verði borgið.

Ég velti því grundvallaratriði fyrir mér hvort allir hv. þingmenn hafi lesið skýrslu Hörpu Njálsdóttur sem að mínu mati er tímamótaverk. Jafnframt er mér spurn hvort allir hv. þingmenn hafi lesið skýrslu Alþýðusambands Íslands, Velferð fyrir alla.

Ég sat fund ASÍ síðastliðið vor þar sem efni skýrslunnar var sérstaklega til umræðu. Fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu þennan fund. Virðulegi forseti. Ég man ekki til þess að hafa séð nokkurn þingmann úr röðum stjórnarliða á þeim fundi. Sú staðreynd endurspeglar hug þeirra til umræðunnar.

Hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Atli Gíslason, gat þess sérstaklega í ræðu sinni að við hefðum ekki efni á fátæktinni. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Atla Gíslasyni. Gerum okkur grein fyrir þeim sparnaði sem fylgir réttum áherslum og vinnubrögðum í velferðarmálum. Óregla, veikindi og ýmiss konar félagsleg vandamál eru fylgifiskar fátæktar. Óregla, veikindi og ýmiss konar félagsleg vandamál kosta peninga fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir tillöguna sem hér er til umræðu. Ríkisstjórn Íslands verður að grípa í taumana nú þegar og skipa nefnd með aðild Sambands íslenskra sveitarfélaga, heildarsamtökum launafólks og öðrum máltengdum félagasamtökum sem hafi það verkefni að koma fram með tillögur til að sporna gegn fátækt á Íslandi.