Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:14:05 (4014)

2004-02-10 15:14:05# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel rétt að bæta upp á minni hv. þm. sem lét hér koma fram að hann myndi ekki eftir neinum þingmanni Framsfl. á umræddum fundi í Salnum í Kópavogi fyrir síðustu kosningar. Ég vil láta það koma fram að ég sat þann fund og reyndar var ég ekki sá eini úr mínum þingflokki sem þarna var.

Í öðru lagi vil ég líka láta það koma fram vegna þess sem hv. þm. varpaði hér fram að ég hef lesið þessi gögn frá Alþýðusambandi Íslands. Ég hef að vísu ekki lesið skýrslu Hörpu Njálsdóttur til neinnar hlítar þó að ég hafi gluggað í hana.

Mér finnst gæta þess hjá hv. þm. að hann taki viðfangsefnið fátækt og snúi því gegn ríkisstjórninni, rétt eins og fátæktin og ríkisstjórnin séu andstæðingar eða jafnvel að ríkisstjórnin sé að vinna að því að koma mönnum í fátækt. Ég vil biðja hv. þm. að skýra ummæli sín nánar í þessu því það væri leitt ef orð hans væru skilin á þann veg sem ég gat hér um að hægt væri að túlka þau.

Ég vil segja, herra forseti, að þvert á móti hefur ríkisstjórnin unnið að því að draga úr fátækt og auka velferð. Ekki verður annað sagt en að dómurinn yfir ríkisstjórninni síðustu átta ár sé á þann veg, með öllum viðurkenndum mælikvörðum, að hún hafi staðið sig betur í því viðfangsefni en nokkur önnur ríkisstjórn á undan henni í jafnlangan tíma.