Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:17:15 (4016)

2004-02-10 15:17:15# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég erfi það ekki á nokkurn hátt við hv. þm. þó að hann hafi ekki tekið eftir því að ég hefði setið í salnum á sínum tíma. Það er engin synd að sjá mig ekki þó að ég sé ekki með lægri mönnum.

Það sem ég vildi draga fram, herra forseti, var að mér fannst ræða hv. þm. um viðfangsefnið beinast um of að ríkisstjórninni, sem aðila sem bæri sök á því ástandi sem upp var dregið. Andsvar mitt er fólgið í því að leiðrétta þann kúrs á ræðu hv. þm. Ég tel að hann sé rangur og tel að ríkisstjórnin hafi um margt staðið sig vel í þeim efnum og það verði ekki hrakið með nokkrum rökum.

Á hinn bóginn er fátæktin til. Við henni þarf að bregðast. Menn þurfa að vinna að því að skapa aðstæður fyrir fólk svo það geti komist úr þeirri stöðu. Það er viðfangsefni sem ég held að allir viðurkenni að við eigum að vinna að, bæði ríkisstjórn og aðrir stjórnmálamenn.