Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:33:43 (4021)

2004-02-10 15:33:43# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Staðreyndin er sú að það er mikill vilji til þess, a.m.k. af hálfu okkar framsóknarmanna, að vinna áfram að því að bæta kjör fólks sem er með slök kjör. Ég vil minna á, vegna þess að hv. þm. beitti sér fyrir því að koma hér á húsaleigubótum, að fyrir fáum árum var afnumin skattgreiðsla af húsaleigubótum fyrir okkar tilverknað og kjör fólks bætt sem því nam. Auðvitað eru menn alltaf að vinna að einhverjum atriðum af þessu tagi.

Ég vil nefna til viðbótar það sem ég nefndi áðan um ályktanir okkar varðandi örorkubætur og skattgreiðslur þeirra sem eingöngu hafa bætur almannatrygginga. Ég hef unnið að því ásamt fleirum að fá fram samþykktir á flokksvettvangi um að hækka atvinnuleysisbætur upp í lágmarkslaun. Það liggur fyrir samþykkt um það. Og líka að taka til athugunar að tengja atvinnuleysisbætur við laun. Á ýmsum stöðum eru menn auðvitað að vinna hugmyndum fylgi sem ætlaðar eru til þess að hjálpa mönnum út úr þeim aðstæðum sem fátæktin er.

Mér finnst að hv. þingmaður megi alveg taka eftir því að við erum samherjar í þessum málum. Ég tók í ræðu minni undir það efni tillögunnar að skoða fátæktina og umfang hennar og kortleggja leiðirnar sem fólki standa til boða til að komast út úr aðstæðunum. Ég tel að stjórnvöld eigi að gera það. Og ég hvet hæstv. félmrh. til að taka til skoðunar hvort ekki sé rétt að hann taki frumkvæði í málinu, setji niður hóp manna í að skoða hvaða leiðir atvinnulaus maður hafi til að koma sér úr út atvinnuleysinu. Það væri mjög þarft verk að ryðja brautina í þeim efnum.