Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:35:58 (4022)

2004-02-10 15:35:58# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég er einn af flm. þessa máls og mér finnst umræðan um það hafa verið ágæt hér í dag. Ég vil samt byrja á því að leiðrétta það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði um skattamálin frá því í vor. Hann útfærði mál sitt svo að við hefðum, samfylkingarmenn, með því að leggja til skattalækkanir verið að skrifa upp á það að ríkisstjórnin hefði staðið sig vel í efnahagsmálum. Hann veit jafn vel og allir aðrir út á hvað þessar skattalækkunarhugmyndir gengu hjá öllum flokkunum sem lögðu þær til. Þær gengu út á þann útreikning sem menn gerðu á því hvað yrði til skiptanna á næstu árum, fyrst og fremst vegna arðs af Kárahnjúkaframkvæmdinni og öðru slíku, þannig að það sé á hreinu hvað það var sem flestir voru sammála um að mundi gefa arðinn í framtíðinni.

Við erum að tala hér um fátækt en við erum raunverulega að tala um samfélag hinna ríku. Þessi eðlisbreyting á samfélaginu okkar er auðvitað illþolandi, að fátækt sé við lýði í landi þar sem menn eru svona yfirdrifið ríkir eins og Íslendingar eru. Það erum við. Ríkisstjórnin getur ekkert sloppið undan ávirðingum eftir að hafa verið við völd á níunda ár og tekið fjöldamargar ákvarðanir sem hafa verið til góða fyrir þá sem hafa það gott í þjóðfélaginu. Hún getur ekki sloppið undan gagnrýni þegar þannig háttar til. Það hefur meira að segja verið gengið á kjör barnafólks á þessu tímabili og því hefur ekki verið skilað aftur. Ýmislegt hefur verið gert til góða fyrir þá sem standa vel í þessu þjóðfélagi, eignamenn og hátekjumenn. Eftir situr fólkið sem hefur svona óskaplega lítið fyrir sig að leggja. Það er auðvitað okkur til skammar, hér á hv. Alþingi.

Menn hafa t.d. hlustað á það í samfélaginu þennan tíma að ríkisstjórn, já og allir, hafi verið að tala hér um stöðugleika og hvetja verkalýðsfélögin til að fara varlega með völd sín í samningum --- til þess að varðveita stöðugleikann. Hvað hefur verið að gerast á sama tíma? Ríkisstjórnin hefur t.d. sett af stað launaskrið hjá opinberum starfsmönnum sem eru miklu meiri launahækkanir en hafa orðið almennt úti í samfélaginu. Við þingmenn sitjum nú uppi með það að á sl. níu árum hefur þingfararkaupið hækkað úr 177 þús. kr. upp í 440 þús. kr. Finna menn sambærilegar launahækkanir á markaðnum? Ég held ekki.

Umræðan í kringum lífeyrissjóðsmálin fyrir jólin gerir okkur á hv. Alþingi auðvitað ekki neitt óskaplega trúverðug, okkur sem erum til að mynda að tala um fátækt, af því að menn eru tilbúnir til þess að taka hluti úr öllu almennu samhengi þegar það á við þá sjálfa. Þannig hefur það verið. Ég nefni þetta lífeyrissjóðsmál af annarri ástæðu samt. Í því samhengi sem það mál var rætt var líka verið að tala um starfslok. Og ég held að þau eigi erindi inn í þessa umræðu um atvinnuleysið og atvinnuleysisbæturnar. Ég verð að segja eins og er að ég tel að í þeim samningum sem eru núna komnir á stað á milli atvinnurekenda og launþega eigi ríkisvaldið að koma inn með eitthvert útspil hvað þessa hluti varðar. Þá á ég við að þar eigi Atvinnuleysistryggingasjóður, lífeyrissjóðirnir, verkalýðsfélögin og stjórnvöld að sameinast um að gera því fólki sem missir vinnuna, komið á nokkuð háan aldur en ekki komið á eftirlaunaaldur, kleift að byrja þá að taka eftirlaun. Það á ekki að láta fólk upp úr sextugu, eða milli sextugs og sjötugs, standa frammi fyrir því að þurfa að fara á atvinnuleysisbætur. Það er ekki hlaupið í vinnu annars staðar á þessum aldri ef maður hefur misst vinnuna. Það eru fleiri en alþingismenn sem tapa sinni vinnu sem eiga kannski svolítið erfitt með að finna eitthvað undir fæturna þegar þeir eru komnir á þann aldur. Þarna er að mínu viti fullkomlega hægt að koma myndarlega til móts við verkalýðsfélögin, t.d. með sveigjanlegum starfslokum sem yrðu þá fjármögnuð með því að þessir aðilar sameinuðust um að gera það.

Umræðan um fátækt á auðvitað heima í sölum Alþingis á meðan menn hafa það ekki betra en raun ber vitni. Við samfylkingarmenn höfum undir forustu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur flutt annað þingmál um afkomutryggingu sem ég teldi að ætti líka fullt erindi í þær lausnir sem menn þyrftu að finna hér á fátæktinni. Mér finnst eiginlega löngu kominn tími til þess að menn hætti að stinga höfðinu í sandinn þegar umræða um fátækt fer fram heldur snúi þeir sér að því að koma til móts við þarfirnar. Ég held að enginn í þessu þjóðfélagi tapi á því að það verði gert. Það er ekki um slíkar upphæðir að ræða fyrir þetta forríka samfélag sem við lifum í.

Ég held að það sé rétt sem var sagt áðan að við töpum á þessari fátækt. Almennt töpum við á henni og siðferðilega töpum við mikið á henni. Þeir sem tapa mest á henni siðferðilega, finnst mér, eru ráðamenn þessa þjóðfélags og svo Alþingi sem heild. Fólkið í landinu lítur auðvitað þannig á að ábyrgðin á málinu liggi hérna.