Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:08:01 (4029)

2004-02-10 16:08:01# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., AtlG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Atli Gíslason:

Frú forseti. Ég vil fyrst svara síðasta hv. ræðumanni. Ég nefndi það að ungmenni hröktust úr skólum og ég taldi að það væri að hluta til vegna fátæktar. Ég þykist vita það líka að þegar barn fær ekki að njóta þess sem lífið býður upp á frá því það fæðist og fram að fullorðinsárum, eins og í tómstundum, íþróttum og leikjum, þá falli það úr skóla. Það verður út undan. Og þessi hópur verður út undan í skólakerfinu þar sem við það bætist að það myndast svona andfélagsleg hegðun þess hóps sem verður út undan. Hann verður út undan vegna þess að hann getur ekki orðið virkur þátttakandi í skólum og öðru slíku. Það er þessi hópur og hvort sem þessar skýrslur sem vísað er til sýna það eða ekki þá held ég að það sé staðreynd að það sé samhengi þar á milli hlutanna. En ég sagði að ungmenni sem falla brott úr skólum leiðast í fíkniefni vegna þess að þau fá ekki vinnu. Ég nefndi ekki fátækt í því samhengi og ég veit að fíkniefnaneysla fer ekki í manngreinarálit eða efnahagsálit í þeim efnum.

Ég get haft uppi langar ræður um það hvernig skólakerfið og grunnskólakerfið virkar í þessum efnum. Ég hef séð dæmi um það að börn eru greind, ég hef eitt dæmi um dreng sem var greindur nokkrum sinnum frá því hann var sjö ára og fram til þess að hann varð 15 ára gamall. Í öllum greiningunum kom fram að eina virka úrræðið fyrir þennan dreng væri það að hann sætti meðferð á sérheimili. Og í niðurlagi allra þessara skýrslna stóð að ef hann fengi ekki þessa meðferð, ef hann fengi ekki þá sérstöku umönnun sem hann þyrfti, sérstakar heimilisaðstæður, þá mundi hann lenda í afbrotum og fíkniefnum. Allt þetta gekk eftir vegna þess að grunnskólakerfið bauð ekki upp á þetta. Krakkar fá greiningu í skólum en henni er ekki fylgt eftir. Það er það sem er kannski aðalatriðið.

Ég kom hér upp, frú forseti, í tilefni af ræðum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og fleiri og þær gáfu mér tilefni til að hugleiða forgangsröðun Framsfl. í sókn sinn til velferðar fyrir alla. Ég, satt best að segja, skil hana ekki. Er það leiðin, er það forgangsröðunin að rétta hátekjufólki og stóreignafólki stórfelldar skattalækkanir í eignarskatti og í hátekjuskatti sem þegar hefur orðið raunin á síðasta ári og er stefnt að með frv. sem hér liggur fyrir? Er þetta forgangsröðunin? Á sama tíma bíða einstæðar mæður, atvinnulausir, fátækir, eftir úrbótum. Er þetta forgangsröðunin?

Ég beini því til hv. þm. eða spyr hann: Er ekki nær að fresta skattalækkunum? Er ekki nær, og ég skora á hv. þm. að beita sér fyrir því, að fresta þeim og leggja þessa peninga í fátæktina, í grunnskólana, í atvinnuleysisbæturnar og bíða? Þeir hafa nóg, þessir ríku. Það er ekki verið að biðja um að þeir verði skattlagðir meira, heldur eingöngu að þessu verði frestað.

Og það er svo, ég geri það a.m.k., ég dæmi bæði skólakerfið og þjóðfélagið eftir því hvernig það kemur fram gagnvart þeim sem minna mega sín, sem verða út undan. Ríkisstjórnarár Framsfl. hafa að mínu mati verið feit ár hátekju- og stóreignamanna, svo einfalt er það, og mögur ár þeirra sem minna mega sín. Slík ríkisstjórn fær falleinkunn og hún fékk falleinkunn hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fyrir kosningar, sem lofaði engum skattalækkunum til þessara hópa sem ríkisstjórnin virðist bera mesta umhyggju fyrir í dag.

Ég ítreka það að við höfum ekki efni á þessari fátækt, hún er allt of dýr í dómskerfinu, í fangelsiskerfinu og skólakerfinu.