Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:15:31 (4032)

2004-02-10 16:15:31# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Ég er búin að tvítaka úr þessum stól hver stefna framsóknarmanna er og ég vænti þess að við getum treyst því að þeir standi við þá stefnu sem þeir kynntu í aðdraganda kosninganna.

Það sem gleður mig og hefur komið skýrt fram í þessari umræðu er að ég og hv. þingmaður sjáum hvar rætur vandans liggja. Vandinn liggur kannski í skólakerfinu og við vitum að við eigum að búa betur að börnum sem eru að byrja þar. Við þurfum að efla sérfræðiþjónustuna og sálfræðiþjónustuna og við vitum það líka bæði, ég og hv. þm., að þegar grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna var með breytingum á reglugerð dregið úr þessari þjónustu. Áður fyrr nutu börn bæði greiningar og meðferðar en eftir yfirfærsluna og breytingu á reglugerð fá þau einungis greiningu. Ég held að ef við legðum meira í þetta --- nú er ég að endurtaka það sem ég hef oft sagt, og opinberlega --- og það er á höndum sveitarfélaganna, á valdi þeirra, gætum við komið í veg fyrir afbrot, líka að unglingar leiddust út í fíkniefnaneyslu og aðrar raunir sem þau standa frammi fyrir á lífsleiðinni.