Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:16:52 (4033)

2004-02-10 16:16:52# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:16]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Ísland er smáríki með innan við 300 þús. íbúa eins og við vitum auðvitað öll. Við búum á hrjóstrugri smáeyju, lengst norður í hafi, og að áliti margra búum við á mörkum hins byggilega heims. Víða um heim býr fólk við erfið og bág kjör og það á ekki heimili, fæði eða klæði og er jafnvel á flótta vegna styrjalda og annarra hörmunga, náttúruhamfara.

Miðað við þetta vesalings fólk erum við Íslendingar ríkir. En það eru ekki margir áratugir síðan Íslendingar skriðu nánast úr moldarkofunum, ef svo má segja, þar sem þeir höfðu hokrað við nöturlegar aðstæður, kaldir og svangir, öldum saman.

Frú forseti. Ég fagna þeirri þáltill. sem hér er lögð fram af hálfu þingmanna Samf. með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í fararbroddi og heiti því að þingflokkur Frjálsl. muni styðja hana áfram fram á veginn í meðförum hins háa Alþingis. Ég tek eftir því í greinargerð og síðan fylgiskjölum með þáltill. að vitnað er í ágæta áfangaskýrslu sem Alþýðusamband Íslands gaf út í mars á síðasta ári, Velferð fyrir alla. Þessi skýrsla, frú forseti, er um margt athyglisvert plagg. Ég man eftir henni úr kosningabaráttunni, man mjög vel eftir henni. Við í Frjálsl. tókum mjög undir þau sjónarmið sem komu fram í þessari skýrslu á þeim tíma og ræddum oft innihald hennar á kosningafundum. Við styðjum það sem hér kemur fram og þær tillögur til úrbóta heils hugar enn þann dag í dag.

Þó að hin sára fátækt úr fortíð þjóðarinnar sé að baki og Ísland teljist ein ríkasta þjóð heims í erlendum samanburðarkönnunum er málum því miður háttað þannig að við hljótum að spyrja hvort við lifum öll sem blómi í eggi. Búum við öll í vönduðum, hlýjum húsakynnum? Höfum við rennandi vatn í krönum, ásamt bað- og salernisaðstöðu í húsum okkar? Höfum við öll farartæki til að ferðast um á? Hafa allir möguleika á nauðsynjatækinu síma? Hafa allir rafmagn til að knýja verkfæri sín og tól? Við erum kröfuhörð í dag, enda kannski mörg góðu vön, viljum fá að ferðast og skoða heiminn, stunda íþróttir og félagslíf. En ætli allir Íslendingar geti notið þessa?

Nei, því miður er það nefnilega ísköld staðreynd að sumir landa okkar ná ekki að lifa af því sem þeir vinna sér inn eða er skammtað með bótum eða lífeyri.

Það eru til einstaklingar á Íslandi sem vita varla aura sinna tal á meðan aðrir lifa við svo kröpp kjör að það er ríkisstjórninni til algjörrar skammar. Já, ég segi ríkisstjórninni. Ég tel að hún beri hér þunga ábyrgð, þeir tveir stjórnarflokkar sem nú hafa ríkt hér á landi um níu ára skeið, Sjálfstfl. og Framsfl. Þeir geta ekki skorast undan ábyrgð í þessum málum.

Hv. Alþingi, við sem hér sitjum við góð kjör sem þjóðkjörnir fulltrúar þjóðarinnar, má líka líta í eigin barm, svo sannarlega. Síðustu mánuði hafa miklar hækkanir orðið á greiðslum til þingmanna. Og hv. þingheimur hækkaði stórlega eftirlaunagreiðslur rétt fyrir jól. Á sama tíma og ég minni á þetta vil ég líka ítreka að ég tel að Alþingi eigi að gera gangskör að því að leita leiða til að minnihlutahópar, eins og t.d. aldraðir, öryrkjar, fatlaðir, atvinnulaust fólk, geti lifað mannsæmandi lífi. Ég ætla ekki að draga dul á að margt gott hefur verið gert til bóta. En miklu betur má ef duga skal.

Þegar rætt er um fátækt í íslensku þjóðfélagi er ekki laust við að á hugann leiti sú staðreynd að það kreppir að í heilbrigðisþjónustunni svo nemur hundruðum milljóna króna. Það er verið að segja upp fólki og minnka þjónustu við þá sem síst mega við því.

Mér finnst skelfilegt að hlusta á þegar ráðamenn láta hafa eftir sér að loka eigi stofnunum á borð við Arnarholt á Kjalarnesi. Óöryggið sem þessar fréttir valda er mikið, bæði hjá einstaklingum sem um er að ræða, aðstandendum þeirra og að sjálfsögðu starfsfólki á þessum stofnunum sem veit ekki sitt rjúkandi ráð. Þessi óvissa fer mjög illa með fólk.

Í sömu fréttatímum og greint er frá niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, skerðingu atvinnuleysisbóta o.s.frv. er svo sagt frá kaupum og sölum, sameiningu og hagræðingu hjá þeim sem höndla með eignir og fyrirtæki fyrir hundruð milljóna, jafnvel milljarða, án þess að hika.

Orðin sameining og hagræðing merkja fyrir verkalýðinn oftar en ekki uppstokkanir og uppsagnir, þá þarf fólk að nýta atvinnuleysisbótakerfið og í því kerfi er ekki feitan gölt að flá, reyndar engan gölt ef grannt er skoðað, þegar við sjáum að atvinnuleysisbætur ná ekki einu sinni upp í 80 þús. kr. á mánuði.

Að lokum skora ég á ráðamenn þjóðarinnar að sjá sóma sinn í að skoða íslenska velferðarkerfið frá grunni og tryggja minnihlutahópum hér, öldruðum, fötluðum, öryrkjum og atvinnulausum, mannsæmandi kjör. Ég vona t.d. að hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, og hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, muni eftir þessum hópum næst þegar þeir splæsa 300 millj. í eitthvert verkefni. Þeir hikuðu a.m.k. ekki við að lofa þeirri upphæð til hernaðarflutninga fyrir NATO á fundi með stóru körlunum erlendis fyrir nokkrum mánuðum. Þá var nóg af milljónum í sjóðum ríkisins. Þá var nóg til af peningum.

Ég leyfi mér að fullyrða að fátækir Íslendingar hefðu þegið með þökkum örfáar krónur af þessum feita hernaðarsjóði í viðbót sér til lífsviðurværis.

Frú forseti. Við eigum gott land og við eigum öll að geta lifað hér góðu lífi. Það er til algjörrar skammar að við skulum þurfa að horfast í augu við það að bilið milli fátækra og ríkra er sífellt að aukast, og fátækt á Íslandi er því miður bláköld staðreynd. Auðurinn er því miður að safnast á fárra manna hendur sem vita ekki aura sinna tal og virðast bara verða ríkari og ríkari með hverjum deginum sem líður á meðan aðrir eiga varla til hnífs og skeiðar. Þetta er staðreynd sem við sem erum kjörin til að sitja hér á hinu Alþingi hljótum að verða að horfast í augu við.

Ég vil enn og aftur ítreka að ég fagna þeirri till. til þál. að Alþingi skuli álykta að fela ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að sporna gegn fátækt og treysta öryggisnet velferðarkerfisins. Við verðum að standa saman um velferðarkerfið okkar. Við búum í erfiðu og dreifbýlu landi en við erum rík þjóð og getum séð til þess að allir þegnarnir lifi góðu lífi. Það ætti ekki að vera mikið mál. Við hljótum að geta staðið saman um það. Ég trúi reyndar innst inni ekki öðru en að um þetta ríki í raun og veru breið pólitísk samstaða meðal allra flokka þegar grannt er skoðað.