Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:42:46 (4040)

2004-02-10 16:42:46# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:42]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Frú forseti. Ég held það sé mjög mikilvægt að halda því til haga í umræðunni að það kom aldrei fram neitt frv. á Alþingi ... (ÖJ: Fjárlagafrumvarpið.) það kom ekki fram neitt frv. á Alþingi sem benti til þess að það ætti að skerða þrjá fyrstu daga í atvinnuleysi. (Gripið fram í: ... fjárlagafrumvarpsins.) Það stóð ekki til. (Gripið fram í: Jú!)

En hvað um það. Það sem aðskilur Framsóknarflokkinn og Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð er kannski ekki áherslur okkar á velferðarkerfið og uppbyggingu þess. Það er áherslur okkar í atvinnumálum því við rekum ekki öflugt velferðarkerfi í þessu landi nema með öflugu atvinnulífi og öflugri atvinnustefnu. Við getum minnst andstöðu (Gripið fram í: Já.) Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að efla atvinnulíf á Austurlandi, (SJS: Fyrir útlendinga?) við framkvæmd sem mun styrkja þjóðarbúið um tugi milljarða á næstu árum, framkvæmd sem mun skila því að við munum geta rekið áfram mjög öflugt velferðarkerfi.

Það er rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan að það kostar sitt að reka öflugt velferðarkerfi eins og við búum við í dag. Til þess að við getum rekið það þurfum við (Gripið fram í: Skatta. Þá þurfum við skatta.) að búa við öflugt atvinnulíf. Við þurfum að búa við öflugt atvinnulíf. Við þurfum ekki að búa við flokk (Gripið fram í: Þá þurfum við steypu.) sem berst á móti framkvæmdum líkt og á Austurlandi, stóriðju á Austurlandi sem mun skipta höfuðmáli í byggðaþróun fyrir þann hluta landsins og ekki síst fyrir þjóðarbúið því við ætlum okkur, a.m.k. við sem störfum með þessari ríkisstjórn, að halda áfram að standa vörð um velferðarkerfið okkar. (SJS: Þá þurfið þið nú að fara að sýna það í verki.)