Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 17:17:00 (4044)

2004-02-10 17:17:00# 130. lþ. 61.11 fundur 138. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám á neti og í tölvupósti) frv., 139. mál: #A ábyrgð þeirra sem reka netþjóna# (barnaklám á neti og í tölvupósti) þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[17:17]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að þessi mál skuli tekin saman til umræðu. Þau fjalla bæði um aukna vernd gegn efni af kynferðislegum eða klámfengnum toga sem börn fá sent með atbeina tölvu- eða fjarskiptatækni.

Í fyrsta lagi er um að ræða frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur og Ástu R. Jóhannesdóttur. Frumvarpsgreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Hver sem sendir barni kynferðislegt eða klámfengið efni með atbeina hvers konar tölvu- eða fjarskiptatækni skal sæta fangelsi allt að 6 mánuðum. Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum.``

Frumvarpi þessu er ætlað að veita börnum aukna vernd gegn efni af kynferðislegum eða klámfengnum toga sem þau fá sent með atbeina tölvu- eða fjarskiptatækni. Með tölvu- og fjarskiptatækni er t.d. átt við tölvuskeyti, spjallrásir, heimasíður á veraldarvefnum, myndir á stafrænu formi og smáskilaboð sem send eru í farsíma. Gert er ráð fyrir því að slík háttsemi af hálfu geranda eða brotamanns verði refsiverð og geti varðað allt að 6 mánaða fangelsi, en allt að 2 ára fangelsi þegar efnið sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.

Með þeirri tækniþróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár hafa möguleikarnir á því að miðla ýmiss konar efni milli manna aukist til muna. Klámefni af ýmsum toga er fyrirferðarmikið á veraldarvefnum, sbr. frétt á vefnum mbl.is 23. september sl., en þar kemur fram að klámsíður á netinu séu taldar vera í kringum 260 milljónir, eða 1.800% fleiri en fyrir fimm árum þegar þær voru 14 milljónir. Klámiðnaðurinn virðist því sterkari en nokkru sinni fyrr eftir tilkomu veraldarvefsins.

Í könnun sem náði til 10.000 barna og foreldra þeirra á Íslandi og Írlandi og í Svíþjóð, Noregi og Danmörku kemur fram að helmingur barna sem nota vefinn hefur heimsótt klámsíður fyrir slysni eða ásetning og einn fjórði hluti barnanna hefur fengið sent klámfengið efni á netinu.

Það er ástæða til að minna á að samtökin Barnaheill hafa haldið úti mjög góðri heimasíðu með leiðbeiningum og fræðslu til að vinna gegn barnaklámi. Þar kemur fram að samtökin hafa skorið upp herör gegn kynferðislegri misnotkun á netinu. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þessa stundina vafra barnaníðingar um netið. Sumir þeirra nota það til að eiga samskipti sín á milli og til að komast í samband við börn. Á netinu skiptast þeir á myndum af börnum, kaupa og selja barnaklám. Oft fara viðskiptin fram milliliðalaust, undir nafnleynd. Stundum er heilum myndasöfnum komið fyrir á leynilegum stöðum, í öðrum tilvikum er þeim dreift um netið þrátt fyrir að það sé bannað í flestum löndum heims.``

Í skýrslu nefndar um úrbætur vegna kláms og vændis er lagt til að sett verði lög sem geri þá sem reka netþjóna ábyrga fyrir því efni sem þar er að finna. Lögð er áhersla á að forða börnum frá greiðum aðgangi að klámefni á veraldarvefnum. Í því skyni er mælt með notkun hugbúnaðar sem gerir fólki kleift að loka fyrir aðgang að ákveðnum slóðum. Það er efni síðari tillögunnar.

En áður en ég vík að henni vil ég nefna að ákvæði 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga er óbreytt frá því að lögin voru sett árið 1940. Með hliðsjón af tækniþróun undanfarin ár og klámvæðingu samfélagsins telja flutningsmenn rétt að skerpa á þeirri vernd sem börnum er sérstaklega veitt með þessu ákvæði þannig að enginn vafi geti leikið á refsinæmi þess að láta börnum í té klámfengið efni á annan hátt en í formi kvikmynda og tímarita. Við vinnslu frumvarpsins komu þau sjónarmið víða fram að þetta væri skynsamlegt til að taka af öll tvímæli um refsinæmi þess að senda börnum kynferðislegt og klámfengið efni, sama í hvaða formi eða hvernig það væri sent.

Flutningsmenn leggja eins og ég gat einnig fram annað mál, um ábyrgð þeirra sem reka netþjóna. Það er þáltill. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort rétt sé að breyta ákvæðum laga um rafræn viðskipti sem fjalla um takmörkun ábyrgðar vegna hýsingar gagna með það að markmiði að ábyrgð þjónustuveitanda verði aukin og hann beri skilyrðislausa ábyrgð á að gera allt barnaklám sem kann að vera hýst á netþjóni hans óaðgengilegt eða fjarlægja það.

Nauðsynlegar lagabreytingar skulu lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en 1. janúar 2005.``

Í skýrslu nefndar dómsmrh. um úrbætur vegna kláms og vændis sem ég vitnaði í áðan segir m.a. að nefndin telji að á sviði lagasetningar sem tekur til kláms á veraldarvefnum megi gera betur og að lög sem gerðu rekendur netþjóna ábyrga fyrir því efni sem þar er að finna væru til bóta.

Síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Fyrirmynd að slíkum lögum er til í sænskri löggjöf en þar gilda lög nr. 112 frá 1998, um ábyrgð þeirra sem reka netþjóna. Í 5. gr. laganna er kveðið á um skyldu þess sem rekur netþjón að eyða eða stöðva frekari útbreiðslu efnis af ákveðnu tagi, þar á meðal barnakláms. Geta brot gegn ákvæðinu varðað sektum eða fangelsi allt að 6 árum.``

Í sænsku lögunum er því lögð bein skylda á þann sem rekur slíka þjónustu að fjarlægja skilaboð sem hafa að geyma barnaklám eða gera þau óaðgengileg á einhvern annan hátt.

Þegar þetta mál var í vinnslu komu fram hjá nokkrum sem við var rætt að skiptar skoðanir og að áhöld væru um hvort þetta sænska ákvæði gengi í bága við tilskipun Evrópusambandsins um rafræn viðskipti. Því er hér flutt till. til þál. um þetta efni en ekki frumvarp. Flutningsmenn, sem eru ásamt mér hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir, telja ástæðu til að kanna hvort svo sé og hvort rétt sé að taka strangari reglu upp í íslenskan rétt þess efnis að sé barnaklám hýst á netþjóni beri sá sem rekur netþjóninn skilyrðislausa ábyrgð á því. Af því tilefni flytjum við þessa tillögu samhliða fyrrgreindu frumvarpi.

Áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, vil ég vitna til þess sem kom fram nýlega á fjölmennri ráðstefnu í Borgarleikhúsinu um rétt barna til öryggis á netinu. Þar kom fram hjá framkvæmdastjóra Barnaheilla að um 60 ábendingar um barnaklám á netinu bærust til samtakanna Barnaheill í hverjum mánuði. Við skoðun reynist vera um barnaklám að ræða í um þriðjungi tilvika.

Á sömu ráðstefnu kom fram hjá Kristjáni Inga Kristjánssyni, rannsóknarlögreglumanni hjá ofbeldisbrotadeild lögreglunnar í Reykjavík, að full þörf væri á sérþjálfaðri og vel tækjum búinni sveit innan lögreglunnar til að taka á brotum gegn börnum á netinu, svo sem barnaklámi, tælingum á börn og fleira, en brotum af því tagi fari sífellt fjölgandi. Kristján segir orðrétt í frétt í Morgunblaðinu 7. febrúar sl., með leyfi forseta:

,,Þetta er vaxandi brotaflokkur, barnaklám og brot gegn börnum tengd því.``

Síðar kemur fram í sömu grein:

,,Í erindi sínu á ráðstefnunni um öryggi barna á netinu sagði Kristján það aðeins tímaspursmál hvenær börn hér á landi lendi í vændi í tengslum við hérlenda vefi, eins og þekkt sé í tengslum við slíkar vefi erlendis.``

Virðulegi forseti. Þau ummæli og annað sem ég vitnaði í frá áðurnefndri ráðstefnu undirstrikar að hér er alvarlegt mál á ferðinni, að brýnt er að Alþingi skoði þetta mál og hvort ástæða sé til þess að herða á ákvæðum í lögum, almennum hegningarlögum sem eru frá 1940, um refsingar við slíkum brotum. Eins þarf að skoða í tengslum við þetta ábyrgð netþjóna eins og ég hef hér lýst.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði báðum þessum málum vísað til hv. allshn.