Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 17:30:46 (4048)

2004-02-10 17:30:46# 130. lþ. 61.16 fundur 166. mál: #A búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv.þm. Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Þetta er 166. mál á þskj. 168.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.``

Þannig háttar til nú um stundir að fram undan eru eða í gang eru farnar viðræður um gerð nýs samnings um mjólkurframleiðsluna og endurskoðunarákvæði eru í sauðfjársamningi og hefur reyndar mikið verið um það rætt að einnig þar yrðu breytingar gerðar á þannig að einmitt nú eru hagstæðar aðstæður til að taka upp viðræður í samstarfi stjórnvalda og hagsmunaaðila um þessi mál. Engum dylst að við margvíslegan vanda er að glíma í íslenskum landbúnaði og erfiðleika hvað varðar byggðamál í strjálbýli í landinu.

Hæst að undanförnu hefur borið vanda sauðfjárræktarinnar en auðvitað búa fleiri greinar landbúnaðar við mikla erfiðleika. Þannig er t.d. afkoma loðdýrabænda mjög slæm og framleiðendur nautakjöts hafa ekki farið varhluta af ástandinu á kjötmarkaði, en þar má heita að ríkt hafi upplausnar\-ástand undanfarin missiri, kjöt verið selt á undirverðum langt undir framleiðslukostnaði og búskapurinn jafnvel rekinn af bankakerfinu að hluta til.

Það er einnig alveg ljóst að núverandi fyrirkomulag á stuðningi hins opinbera við landbúnaðinn er á margan hátt umdeilanlegt, þ.e. að tvær að vísu megingreinar landbúnaðarins, mjólkurframleiðsla og sauðfjárrækt, búa við samninga við ríkisvaldið um stuðning við framleiðslu sína og njóta umtalsverðs styrks af opinberu fé í formi beingreiðslna til bænda vegna þeirrar framleiðslu sem rúmast innan samningsins, og þá er fyrst og fremst átt við framleiðslu sem fullnægir þörfum innanlandsmarkaðar. Þetta hefur hins vegar þann galla að önnur búskapartengd atvinnuumsvif í sveitum sitja þarna ekki við sama borð auk þess sem búvörusamningar bundnir við framleiðslutakmarkanir eða kvóta hafa ýmsa ágalla. Framseljanlegir kvótar taka á sig verðgildi sem gengur kaupum og sölum innan greinarinnar og búa til þröskulda í kynslóðaskiptum eða við jarðakaup í landbúnaðinum sem ella væru ekki til staðar eða lægri en nú er.

Vandinn er ekki sá að ýmis nýbreytni í atvinnumálum sveitanna hefur verið að koma til sögunnar á undanförnum árum. Margt hefur þar verið reynt og sumt tekist ágætlega, eins og t.d. uppbygging í ferðaþjónustu til sveita. En því miður hafa þau störf sem þannig hafa bæst við tæplega dugað til að vega upp á móti hinum sem tapast hafa vegna samdráttar í hefðbundnum búskap. Því er gríðarlega mikið í húfi að það takist að snúa vörn í sókn og tryggja að raunveruleg nýsköpun í atvinnulífinu nýtist byggðinni í sveitunum í strjálbýli landsins til þess að fjölga atvinnuúrræðum og gera það mögulegt að snúa vörn í sókn í byggðum. Ella er það alveg ljóst að byggðahrun getur orðið í heilum héruðum og landshlutum ef svo heldur sem horfir til langs tíma. Félagslega mega sveitirnar yfirleitt ekki við því að þar fækki fólki umfram það sem nú er og sérstaklega bagalegt er það auðvitað ef ungt fólk sér sér ekki fært að setjast þar að, skapa sér þar lífsviðurværi og festa þar ráð sitt þannig að eðlileg endurnýjun og eðlileg kynslóðaskipti fari fram.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt umtalsverða vinnu í að reyna að skilgreina og átta okkur á þessari stöðu og höfum á undanförnum missirum mótað tillögur um það sem við köllum búsetutengdan grunnstuðning við landbúnað og byggð í sveitum landsins. Það fyrirbæri er allítarlega útskýrt í greinargerð með tillögunni og í fylgiskjölum sem þar fylgja, bæði í ályktunum sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur gert um málefni landbúnaðarins og blaðagreinum, m.a. eftir undirritaðan sem birst hafa í Bændablaðinu og víðar um nýsköpun í atvinnulífi til sveita, um búsetutengdan grunnstuðning og mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja í atvinnusköpun, ekki síst með tilliti til möguleika strjálbýlisins að þessu leyti.

Eins og ljóst má vera, hvað sem líður góðum áformum um að auka fjölbreytni og sækja fram á grundvelli nýrra atvinnugreina, nýrra möguleika í sveitum landsins, þá verður of seint í rassinn gripið í þeim efnum ef algjört hrun er orðið í því atvinnulífi sem fyrir er og ber uppi búsetuna og byggðina enn sem komið er. Það eru auðvitað störfin sem tengst hafa hinum hefðbundna landbúnaði og þjónustu við hann og úrvinnslu á framleiðsluvörum sem borið hafa uppi hið hefðbundna búsetumunstur í strjálbýli landsins. Þess vegna þarf að nálgast þetta með tvennt í huga í senn, að verja það sem til staðar er, slá skjaldborg um það eftir því sem kostur er, ekki endilega á grundvelli þess að allt sé óbreytt heldur þannig að menn leiti nýrra leiða í þeim efnum sem eru í takt við þróun og kröfur tímans. En samtímis og til viðbótar og til hliðar þessu verður að stórauka og efla aðgerðir til þess að stuðla að nýliðun, nýsköpun og endurnýjun í atvinnulífi og búsetu í strjálbýlinu.

Við höfum einnig lagt mikla áherslu á að stuðla að sjálfbærri þróun innan landbúnaðarins. Við viljum styðja hefðbundnar fjölskyldueiningar í rekstri og vörum við tilhneigingu til óhóflegrar samþjöppunar og verksmiðjubúskapar. Það gerum við m.a. af umhverfis- og hollustuástæðum. Það nægir fyrir menn að kynna sér þann ófarnað sem sums staðar hefur í nágrannalöndunum leitt af óhóflegri samþjöppun og óhóflegum verksmiðjubúskap sem hefur síðan aftur leitt yfir menn mikil vandamál á sviði hollustu- og heilbrigðismála hvað varðar sjúkdóma og fleira í þeim dúr.

Við teljum að þessi grundvallarnálgun eða breyting, að opna fyrir möguleika á fjölbreyttari stuðningi við aðrar greinar landbúnaðartengdrar starfsemi og eftir atvikum jafnvel nánar skilgreind atvinnuumsvif í strjálbýli landsins og láta menn þar vera nær því að sitja við sama borð en nú er hvað varðar stuðning eða umhverfi af hálfu hins opinbera, þá megi vinna heilmikið í þessum efnum. Þannig má hugsa sér að einhver hluti þess stuðnings sem nú er innan hefðbundnu búvörusamninganna færist yfir á form búsetutengds grunnstuðnings hvað varðar hefðbundnu greinarnar tvær, sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu, en viðbótarfjármunum verði síðan varið í það að gera sambærilegan grunnstuðning mögulegan við aðrar greinar landbúnaðar og eftir atvikum önnur landbúnaðar- eða atvinnutengd umsvif í sveitunum.

Hér þurfa menn ekki að óttast það að um yrði að ræða einhvern óútfylltan víxil og hér væri verið að fara inn á braut sem þýddi stjórnlausa aukningu útgjalda. Engu slíku er til að dreifa. Það er ekki hugsunin af okkar hálfu, enda takmarkar að sjálfsögðu sú búseta sem eftir er í strjálbýli landsins, sá fjöldi býla, mjög það umfang sem um væri að ræða nema menn væru tilbúnir til að fara inn á þá braut að opna hreinlega fyrir nýbýli eða það að búseta vaknaði upp á nýjan leik á jörðum sem komnar eru í eyði. Sá sem hér stendur ætlar síður en svo að útiloka slíkt. En um það gætu menn sett sér reglur og viðmiðanir. Ef menn væru í aðalatriðum að horfa til þess að reyna að að verja þá búsetu, þann fjölda eininga sem verið hefur við lýði, þá snerist þetta um stuðning við búsetu á kannski fjögur til fimm þúsund lögbýlum í landinu. Það er að sjálfsögðu afmarkað og viðráðanlegt viðfangsefni að skilgreina hvernig stuðningi ríkisvaldsins við slíka byggð er fyrir komið.

Að sjálfsögðu þjónar þessi stuðningur margvíslegum tilgangi. Hann er liður í því að viðhalda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar. Hann er liður í því að varðveita það menningarlega og sögulega gildi sem landbúnaðurinn hefur. Hann er liður í því að varðveita það sem við getum kallað menningarlandslag og er viðurkennt og þekkt nálgun í stuðningi nágrannaþjóða við búsetu eða landbúnað sinn í strjálbýli. Má þar nefna þann margvíslega stuðning sem af slíku tagi tíðkast á hinum Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og víðar.

Virðulegur forseti. Enginn vafi er á því a.m.k. að þörf er fyrir nýja hugsun og það er þörf fyrir ný úrræði í þessum efnum. Við mikinn skipulagsvanda og að mörgu leyti kreppu, má segja, er að glíma í málefnum landbúnaðarins að þessu leyti. Þá á ég ekkert síður við hinn hugmyndafræðilega grunn og pólitíkina eða stefnuna sem þar er rekin heldur en beinlínis tal um krónur og aura og slíka hluti. Það er mikil þörf á nýsköpun einnig hvað varðar hinn hugmyndafræðilega og pólitíska grundvöll þessara mála í landinu.

Ég held að ekki sé ósanngjarnt að orða það svo að landbúnaðurinn þurfi á pólitískum stuðningi að halda og mér liggur við að segja hjálp vegna þeirra miklu erfiðleika sem menn hafa þar verið að glíma við og vegna þeirra öru og miklu breytinga sem menn hafa gengið í gegnum. Sömuleiðis þurfa stjórnvöld á samvinnu við landbúnaðinn, við bændur og samtök þeirra, að halda eigi menn að vinna sig í gegnum þessa erfiðleika á einhvern vitrænan máta. Þarna er um klassískt samstarfsverkefni að ræða þar sem hagsmunaaðilar og stjórnvöld þurfa að taka höndum saman, enda eru þessir aðilar í viðamiklu samstarfi í gegnum búvörusamninga og málefni þessarar greinar og málefni byggðanna í strjálbýli landsins í heild sinni.

Auðvitað mætti tína fjöldamargt fleira til sem skiptir máli, svo sem samgöngur, fjarskipti, jöfnun lífskjara, aðgengi manna að þjónustu, menntun, heilsugæslu o.s.frv. Allt skiptir þetta máli. En í miðpunkti eða miðlægt í þessari umræðu eru auðvitað málefni atvinnulífsins, atvinnugreinanna sem bera uppi búsetuna og tekjuöflun í strjálbýlinu. Menn hljóta að hugsa þessa hluti út frá því að reyna að verja það sem fyrir er, það sem til staðar er þó enn þá, og byggja á þeim grunni og byggja út frá því eins og kostur er. Það er nálgun okkar, virðulegur forseti, og við teljum okkur vera að leggja okkar af mörkum með þessari stefnumótun og þeim tillöguflutningi sem hér er á ferðinni.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til 2. umr. og hv. landbn. þó vissulega mætti færa fyrir því rök að fleiri fagnefndir þingsins ættu að koma að þessu borði. Ég fullyrði að það væri skynsamleg og góð ráðstöfun að skipuð yrði þverpólitísk nefnd, skipuð fulltrúum allra þingflokka til að vinna með og vera stjórnvöldum og bændasamtökum til samstarfs og ráðuneytis við þetta verkefni. Það er þannig ástatt nú, eins og ég kom að í upphafi máls míns, að tímabært er að fara í slíkar aðgerðir. Þannig stendur á að gildistími gildandi samninga býður upp á það og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að slíku frumkvæði af hálfu Alþingis og stjórnmálalífsins yrði vel tekið af hálfu þeirra sem í hlut eiga.