Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 17:54:02 (4050)

2004-02-10 17:54:02# 130. lþ. 61.16 fundur 166. mál: #A búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[17:54]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa stuðningi við þá tillögu sem hér var mælt fyrir af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og þá hugsun að skoða þurfi og móta að nýju grundvöll íslensks landbúnaðar og horfa þar til þeirrar framtíðar sem ég tel einna mest um vert, að Ísland án landbúnaðar og án búsetu vítt og breitt um landið verði okkur ansi lítils virði í framtíðinni. Ég tel að það sé eiginlega grundvöllur þess að við seljum þetta land í framtíðinni sem ferðamannaland, sem áhugaverðan kost fyrir fólk frá öðrum löndum og okkur sjálf að ferðast um, og það markmið sem mér finnst að við ættum að setja okkur er að sjá til þess að byggð í sveitum landsins haldist og þar geti fólk lifað eðlilegu lífi með eðlilega afkomu, nokkurn veginn sambærilega afkomu við það sem gerist í þéttbýlinu. Það er með því hugarfari, held ég, sem við verðum að horfa til framtíðar.

Ég hygg að það væri óbætanlegur skaði fyrir okkur Íslendinga sem þjóð ef svo færi á næstu árum og áratugum að stöðugt héldi áfram að fækka í sveitum og á hinum byggðu bólum í landi hér, og ef sú staðarþekking sem því fylgir að hafa verið búandi í sveit kannski mann fram af manni eða að hafa tekið við býli þar sem þekkingin gekk frá manni til manns hyrfi eða finnist þá aðeins skráð í bókum en ekki í hinu eðlilega umhverfi þar sem fólk býr og þekkir til staðhátta, sögu og nytja.

Það er auðvitað þannig að nytjum manna á sveitabýlum hafa verið sett takmörk og það höfum við jú gert með þeim ákvörðunum að skammta mönnum framleiðslurétt, nokkurs konar kvótakerfi í landbúnaði, bæði í mjólkurframleiðslunni, og þó alveg sérstaklega þar, en einnig í sauðfjárframleiðslunni þó að þar geti menn framleitt án þess að njóta hinna beinu styrkja, þ.e. beingreiðslnanna.

Ég tek undir það og tel að það sé gott innlegg í þetta mál þar sem segir í tillögunni ,,að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum``.

Ég held að þetta sé algjörlega hárrétt ályktun og er í raun og veru sama niðurstaða og við í Frjálsl. komumst að þegar við vorum að skoða þær staðreyndir sem við búum við í landbúnaði og hvað við vildum sjá til framtíðar, vegna þess að það var skoðun okkar eftir að hafa starfað í nefnd með flokksmönnum okkar um landbúnaðarmálin að það yrði að horfa til breyttrar framtíðar en þó með það að leiðarljósi að það væri mikils virði að halda landinu í byggð og til þess vildum við fórna einhverju. Og í raun og veru væri þar, þegar til framtíðar væri litið, e.t.v. ekki um neina fórn að ræða heldur eingöngu að tryggja það að þau verðmæti sem liggja í sveitum landsins og náttúru þess verði bæði okkur og öðrum gestkomandi í landinu til afnota og ánægju um ókomna framtíð. Fyrir utan það að aðalmarkmið landbúnaðar er auðvitað að framleiða vöru sem íslenska þjóðin vill kaupa og sem betur fer þrátt fyrir mjög mikla framleiðslu í öðrum kjötafurðum, eins og svínakjöti og kjúklingum, er það samt svo að við neytum mikils af kindakjötinu og notum okkar innlendu mjólk.

Ég tel að þessar hefðbundnu greinar landbúnaðarins muni áfram um þó nokkra framtíð og vonandi sem lengst verða undirstaðan í því að hægt sé að búa hér í landinu því að samfara því er auðvitað ákveðin landnýting og ákveðin menning, sem líka er áhugaverð fyrir þá sem um landið fara. Og daufar væru sveitir landsins ef ekki væru búin og landnytjar fólksins sem þar býr til að horfa á.

Við teljum að breyta þurfi styrkjum í landbúnaði og horfa til þess að núverandi búvörusamningar falla úr gildi annars vegar 2005, mjólkursamningurinn, og hins vegar 2007, sauðfjársamningurinn, og ekki seinna vænna að vinna að því hvað við eigi að taka og hvers konar útfærsla þar eigi að vera.

Við teljum að áfram þurfi að leggja fé til landbúnaðarins og eins og ég sagði áðan í ræðu minni muni það verða þjóðinni til góðs til framtíðar og við eigum ekki að horfa á það sem neikvæðan þátt að landbúnaðurinn njóti einhverra styrkja. Hins vegar teljum við að það þurfi að breyta núverandi styrkjafyrirkomulagi í það að vera landnýtingar- og búsetustyrkir og er það nokkuð í samræmi við það sem vikið er að í tillögunni sem hér er verið að ræða. Efnislega getum við í Frjálsl. því tekið undir það að fara í vinnu að þessu leyti. Ég held að það væri affarasælast fyrir okkur sem þjóð og einnig fyrir fólkið sem býr í sveitum landsins að um þetta næðist nokkuð víðtæk samstaða á Alþingi.

Ég vil trúa því að hvaða áherslur sem menn hafa í pólitík að þessu leyti sé það viðhorf almennt ríkjandi í þjóðfélaginu í öllum stjórnmálaflokkum að okkur sé enginn ávinningur að því að byggðir fari meira halloka en verið hefur og það beri að stuðla að því að skoða það.

Það er auðvitað fjöldamargt sem getur styrkt atvinnurekstur í sveitum eins og ferðamennska og náttúrunytjar, en náttúrunytjunum hafa auðvitað verið settar skorður vegna þess að þær hafa verið teknar m.a. inn í kvótakerfið. Og þær náttúrunytjar sem menn höfðu áður aðgang að til búdrýginda og voru jafnvel uppistaða í tekjum sumra, voru teknar úr sjó. Fjörunytjarnar eins og reki og selur eru kannski minna virði nú en áður var en það er hins vegar ferðamennskan sem hægt er að horfa á í því sambandi og fjöldamargt annað ef við sameinumst um það.