Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 18:02:24 (4051)

2004-02-10 18:02:24# 130. lþ. 61.16 fundur 166. mál: #A búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[18:02]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það eru örlög hæstv. landbrh. þessa dagana að vera fjarri þegar rætt er um málefni landbúnaðarins á Alþingi. Kannski væri ástæða til að sjónarmið hans kæmust á framfæri, bæði í þessari umræðu og öðrum sem hér hafa farið fram.

Það vakti einnig athygli manna að sjálfur byggðamálaráðherrann hélt því fram á heimasíðu sinni að það stefndi ekki í rétta átt í sauðfjárbúskap. Hún hafði reyndar sjálf staðið í honum í 30 ár og taldi fullreynt hvað varðaði útflutning á sauðakjöti.

Mér finnast nokkur tíðindi að hér skuli koma tveir fyrrverandi landbúnaðarráðherrar og vera sammála um að komið sé að leiðarlokum þessarar stefnu, stefnu sem hefur reyndar sérstaklega verið keyrð af Sjálfstfl. og Framsfl. gegnum tíðina og kynslóðum saman.

Nú er auðvitað öllum ljóst að á þessu verður að verða breyting. Þó að ég lýsi út af fyrir sig yfir ánægju með það sem hér er lagt fram virðist mér sem hér sé ekki lagt upp með þau markmið sem mér finnst að þurfi að vera á bak við breytingu af þessu tagi. Mér finnst tími kominn til að menn horfist í augu við að það eigi að gilda jafnræði hvað varðar atvinnurekstur í sveitum. Ef menn vilja styðja búsetu og atvinnulíf í sveitum þá eiga menn að gera það á jafnræðisgrundvelli og stefna að því að koma á slíku fyrirkomulagi á einhverjum tíma. Mér finnst uppgjöf fólgin í því orðalagi sem notast er við í tillögugreininni, þ.e. að tala um að skapa meira jafnræði milli greina. Eftir því sem ég skil það er bæði átt við greinar innan landbúnaðarins og annað atvinnulíf sem gæti verið í sveitum.

Ég held að ýmislegt bendi til þess að ef við tökum ekki á þessum málum með markmiði af því tagi sem ég nefndi þá verðum við neydd til þess innan fárra ára, með þeim samningum sem við tökum þátt í að skapa á alþjóðlegum vettvangi. Það er ekki þannig að menn ætli að hætta að styðja landbúnað, t.d. í Evrópu. En menn styðja hann ekki lengur með þeim hætti sem gert er hér. Við verðum að horfast í augu við það.

Ég ætla að taka það fram að mér finnst ekki að alltaf eigi að sækja viðmiðin út fyrir landsteinana. Mér finnst t.d. að afstöðuna til þess hvort gæta eigi jafnræðis, að þegnarnir séu látnir njóta jafnræðis, þurfi ekki að sækja út fyrir landsteinana. Það eiga menn að geta séð. Það ætti að vera Alþingi leiðarljós í öllu sem gert er, að gætt sé jafnræðis milli þegnanna, milli atvinnugreina og innan atvinnugreina. En ekkert af því hefur verið stundað í grundvallaratvinnugreinunum í okkar landi.

En þegar fyrrverandi hæstvirtir landbúnaðarráðherrar hafa gengið í stólinn hver um annan þveran og lýst því yfir að nú þurfi að breyta og taka málin öðrum tökum, eins og hæstv. forseti Alþingis komst að orði áðan, er auðvitað ástæða til að fagna því. Þá getur maður farið að vona að eitthvað gerist sem breyti þeirri stefnu sem hefur gilt svo lengi. Menn hafa verið tilbúnir að verja fram í rauðan dauðann sérréttindi ákveðinna hópa í þjóðfélaginu til stuðnings frá ríkinu. Þó menn hafi verið að basla í lífsbaráttunni hlið við hlið hefur ríkið fært einum fjármuni en látið annan éta það sem úti frýs. Svona fyrirkomulag hafa alþingismenn varið með öllum ráðum.

Ég tel að ef menn ætla í alvöru að endurskoða þessa stefnu verði þeir að horfast í augu við það að jafnræðisreglurnar þurfa að vera leiðarljós inn í framtíðina.

Þetta er innlegg mitt til þessa máls. Ég hef þá skoðun að það megi auka stuðning við búsetu og atvinnulíf í sveitum og það eigi að gera það. Jafnframt tel ég að menn verði að setja stefnuna á að það verði byggðastuðningur sem fólk, sem vill búa úti á landsbyggðinni, njóti jafnræðis til að fá. Það kann að vera að það þurfi tíma til að koma slíku jafnræði á en að mínu viti er kominn tími til þess fyrir langa löngu að takast á við það verkefni að komast út úr þessum frumskógi sérréttinda og misnotkunar á almennum sjóðum landsmanna til handa einstökum aðilum í þessu þjóðfélagi. Það hefur nánast aldrei verið verjandi að menn moki fjármunum í tvær búgreinar en láti aðra éta það sem úti frýs.

Auðvitað er heldur ekki verjandi í sjávarútveginum að nýliðar í sjávarútvegi fái engan stuðning en öðrum sé úthlutað að fá að nýta auðlindina fyrir ekki neitt. Þannig er búið til fyrirkomulag sem lokar fyrir nýliðun í greininni. Þannig er það líka í landbúnaðinum. Þar er lokað fyrir nýliðun í greininni. Ef menn ætla að halda þessari stefnu áfram þá er það stefna sérréttinda. Það er engin nýliðun ef menn kaupa réttinn til að fá stuðning frá ríkinu af þeim sem fyrir eru. Þetta er óþolandi ástand sem menn verða að sýna virkilegan vilja til að koma sér frá. Til þess er löngu kominn tími.

En ég fagna því að það örlar greinilega á stefnubreytingu í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram.