Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 18:26:58 (4054)

2004-02-10 18:26:58# 130. lþ. 61.16 fundur 166. mál: #A búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu að neinu marki. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir góðar umræður hér og jákvæðar undirtektir við tillöguna svona að mjög miklu leyti. Ég leyfi mér að túlka það sem svo. Ég held í það heila tekið megi segja að hér hafi verið mikill samhljómur í ræðum manna fyrir utan kannski það helst að stjórnarliðar höfðu uppi nokkra tilburði til að rökstyðja að þessu væri öllu saman vel fyrir komið í höndum meiri hlutans. Menn geta haft sínar skoðanir á því.

En hitt leyfi ég mér að fullyrða að ef svo er að sæmilega þverpólitísk samstaða sé á bak við aðgerðir í þessa veru, þó menn auðvitað mundi greina eitthvað á um á um útfærslu og leiðir, þá eru algjör mistök að virkja ekki þá samstöðu. Ekki veitir nú landbúnaðinum og sveitunum og strjálbýlinu af. Ég skora því á menn í stjórnarflokkunum og ekki síst í flokki hæstv. landbrh. að bera hæstv. ráðherra þau skilaboð að góð ástæða sé til að ætla að verulegur, þverpólitískur og öflugur stuðningur sé bak við það að fara í vinnu af þessu tagi í samstarfi við Bændasamtökin og eftir atvikum mættu það gjarnan einnig vera aðilar vinnumarkaðarins eins og hér var á árum áður, um að reyna að móta slíkan nýjan grundvöll undir búvöruframleiðsluna og byggð í sveitum, ekki síst með nýsköpun í atvinnulífinu þar í huga.

Fáein atriði vil ég aðeins drepa hér á sem borið hefur á góma. Ég er sammála hv. 2. þm. Norðaust., Halldóri Blöndal, um að ég tel að gerð hafi verið ákveðin mistök í sambandi við endurskoðun búvörusamningsins frá 1991 þegar menn lentu út á þá braut að taka upp sameiginlega ábyrgð eða sameiginlega útflutningsskyldu í stað þess að halda sig við upphaflega stefnumótun um að beina stuðningi ríkisvaldsins að framleiðslunni fyrir innanlandsmarkað, m.a. til þess að það nýttist sem best til að ná niður verðinu á þeirri mikilvægu neysluvöru, og halda síðan útflutningstilraununum aðgreindum og hafa þær á ábyrgð framleiðenda og útflytjenda, alls ekki með það í huga að útiloka möguleika á útflutningi heldur hitt að hann yrði að vera sjálfstæð viðleitni af hálfu þessara aðila og yrði ekki blandað saman við innanlandsmarkaðinn og stuðning ríkisvaldsins við þá framleiðslu.

Auðvitað er ljóst að ef enginn útflutningur væri eða reynist mögulegur þá er það mikið áfall, sérstaklega fyrir sauðfjárræktina. Við óbreyttar aðstæður mundi það þýða 30--40% samdrátt í framleiðslunni og samsvarandi samdrátt í úrvinnslu, verri afkomu sláturleyfishafa og annað í þeim dúr. Ekki þarf því að ræða það í sjálfu sér hvað sem byggðamálaráðherra finnst um það efni.

Einnig er ljóst að loksins hefur rofað verulega til í þessum útflutningstilraunum núna síðustu eitt, tvö árin. Nú er að skila sér mun betra verð og meira magn er að seljast á tiltölulega viðunandi verði en nokkurn tímann áður. Í sumum tilvikum er þar um að ræða miklu meira unna vöru þannig að virðisauki verður eftir í landinu þar til viðbótar skilaverðinu sem að endingu kemur til bænda. Það er auðvitað fagnaðarefni.

[18:30]

Menn hafa rætt um og eru yfirleitt sammála um mikilvægi þess að stuðla að og hlúa að öðrum atvinnukostum. Hv. þm. Halldór Blöndal nefndi sérstaklega ferðaþjónustuna og ég er honum ákaflega sammála um það og fleiri gerðu það. Ég er talsmaður þess að menn hlúi að uppbyggingunni þar og beiti eftir atvikum svæðisbundnum styrkjum eða byggðastyrkjum. Við höfum til þess fullar heimildir. Það er alveg ljóst að uppbygging ferðaþjónustu úti um landið flokkast öll undir atvinnustarfsemi sem er í raun og veru hvoru tveggja, á svæðum sem flokkast samkvæmt evrópskum reglum sem þróunarsvæði og um er að ræða rekstur í svo litlum einingum að við getum beitt heimildum sem samkeppnislöggjöf Evrópusambandsins heimilar til að styðja við atvinnustarfsemi í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Okkur eru því allir vegir færir hvora leiðina sem við vildum fara.

Alþingi hefur tekið upp tilskipun um stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki, flokkun á þeim. Reyndar flokkast allur þorrinn af íslenskum fyrirtækjum undir það að vera litlar eða meðalstórar einingar í rekstri á evrópska vísu.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson lýsti stuðningi við tillöguna og kom inn á mikilvægi þess að verja búsetuna út frá þeirri þekkingu sem þar væri og þeim gríðarlegu verðmætum sem í henni eru fólgin. Ég er algjörlega sammála því. Það hafa fleiri nefnt menningarlega þáttinn og þá þekkingu sem þar er til staðar, landnýtinguna og sambúðina við landið, gæslu landsins og þau verðmæti sem fólgin eru í þeim þáttum. Ég vil líka minna á innviðina sem byggðir hafa verið upp í formi samgöngukerfis, raforku- og fjarskiptakerfis, hafna, flugvalla og vega um landið og glatast eða nýtist með allt öðrum hætti ef byggðin hverfur og um verður að ræða einhverjar selstöðvar eða sumardvalarbyggðir.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi fjarveru hæstv. landbrh. og reyndar líka skrif á heimasíðu hæstv. iðn.- og viðskrh. sem fer með byggðamál. Ég get tekið undir það. Það kom manni spánskt fyrir sjónir að lesa þær vangaveltur um málaflokk sem heyrir undir flokksbróður hæstv. ráðherra í ríkisstjórn. Maður spyr sig að því: Er lítill samgangur þarna á milli? Hafa þau aldrei sest niður og rætt þetta yfir kaffibolla, hæstv. byggðamálaráðherra og hæstv. landbrh.? Hvernig stendur á því að hæstv. byggðamálaráðherra fer jafnhörðum orðum og raun ber vitni um viðleitni til útflutnings á landbúnaðarvörum undir handleiðslu hæstv. landbrh., því í þetta eru lagðir opinberir fjármunir sem fara um landbrn. að miklu leyti. Að vísu er utanrrn. komið í þetta líka með einhverjar eyrnamerktar fjárveitingar en þar er enn einn flokksbróðir hæstv. byggðamálaráðherra á ferð. Ekki verður því málið minna kúnstugt við það, ef hæstv. byggðamálaráðherra Valgerður Sverrisdóttir er svona óskaplega vantrúuð á og ósátt við þá viðleitni sem þarna er í gangi og fer fram alveg sérstaklega undir forustu formanns og varaformanns Framsóknarflokksins, utanrrh. og landbrh. Maður skyldi ætla að þetta væri í traustum höndum. Það eru greinilega skiptar skoðanir um þetta í herbúðum framsóknarmanna, samanber lesningar á heimasíðu byggðamálaráðherra. (Gripið fram í: Hún er að fjalla um Evrópusambandið.)

Já. Það er kannski ekki ástæða til að gleyma því að rúsínan í pylsuendanum var auðvitað sú lausn á málinu sem hæstv. ráðherra velti vöngum yfir, þ.e. að þetta leystist allt með því að ganga í Evrópusambandið. Það er enn kostulegra því í skýrslu utanrrh. frá því í apríl 2000, ef ég man rétt, stóru skýrslunni um mat á því hvaða hagsmunir væru fólgnir í því á móti göllum að ganga í Evrópusambandið, var komist að tiltölulega afdráttarlausri niðurstöðu hvað landbúnaðinn varðar, að það væri ekkert minna en rothögg á allar helstu greinar landbúnaðarins að ganga í Evrópusambandið, það væri helst sauðfjárræktin sem gæti mögulega hjarað vegna þess að hún er svo gríðarlega mikið styrkt sem hálfgerð hobbígrein eða fjallabúskapur í löndum Evrópusambandsins. Ef íslenskir sauðfjárbændur væru duglegir við að sjúga styrki út úr kerfinu í Brussel ættu þeir sér lífsvon í Evrópusambandinu, en það er tiltölulega afdráttarlaust. Hvað varðar aðrar greinar, hvítakjötsframleiðsluna, mjólkuriðnaðinn að verulegu leyti nema helst dagvöru, garðyrkju og grænmeti, yrðu þetta miklar búsifjar.

Ekki sækir hæstv. byggðamálaráðherra rök í skýrslu flokksbróður síns og formanns, hæstv. utanrrh., hvað varðar landbúnaðinn og hag hans af því að ganga í Evrópusambandið.

Hv. þm. Jón Bjarnason nefndi ferðaþjónustuna einnig og verðmæti sem í byggðum væru fólgin sem drægju til sín ferðamenn og dreifðu þeim út um landið. Ég er algjörlega sammála því. Eitt af því sem blasir við okkur Íslendingum er þetta gríðarlega verkefni að taka við vaxandi fjölda ferðamanna, allt að 0,5--1 milljón innan fimm til tíu ára ef heldur sem horfir. Hvernig í ósköpunum ætlum við að fara að þessu? Ætlum við að stafla þeim upp í fleiri og fleiri hótel í Reykjavík? Ætlum við að láta fleiri og fleiri fótumtroða Landmannalaugar, Gullfoss og Geysi og Herðubreiðarlindir eða ætlum við að reyna með skynsamlegri pólitík að dreifa álaginu af þessum vaxandi fjölda ferðamanna sem allra víðast um landið og byggja upp aðstöðu og möguleika til að taka á móti þeim og svara þörfum þeirra sem víðast og á sem fjölbreyttustum forsendum þannig að þetta verkefni verði viðráðanlegt? Ef við gerum það ekki byrjar að myndast haugatúrismi eða massaferðamennska af því tagi sem getur orðið sjálfveiðandi í lokin vegna þess að menn troðast þar hverjir innan um aðra og sú sérstaða og þau einkenni sem ferðalög um Ísland hafa hingað til haft glatast ef við gætum ekki vel að okkur. Fyrir utan að fjársjóðurinn sjálfur, náttúra landsins, sem dregur 90% af öllum ferðamönnum sem koma til Íslands að samkvæmt könnunum er í húfi.

Hv. þm. Hjálmar Árnason hafði sömuleiðis uppi heldur hlýleg orð og taldi það tíðindi nokkur að hann væri tiltölulega jafnsammála málflutningi hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og raun ber vitni í málinu. Ég vona að hv. þm. verði ekki bumbult þó þetta gerist af og til, heldur á hv. þm. þvert á móti að gleðjast yfir því að stundum liggja leiðir manna saman.

Ég get verið sammála um að út af fyrir sig er grundvallarspurningin sem fyrst þarf að svara í þessum efnum: Er pólitískur vilji til að styðja áfram landbúnað, matvælaframleiðslu og matvælaöryggi þjóðarinnar um leið og við erum að verja byggðina í strjálbýlinu og viðhalda þeim verðmætum sem í henni eru fólgin, ekki bara í núinu, ekki bara sem eitthvert stöðugt fyrirbæri heldur líka möguleika framtíðarinnar? Ég held að menn eigi að hafa það sérstaklega inni í myndinni að í gegnum byggðina og áframhaldandi búsetu sem víðast í landinu varðveitast þeir möguleikar sem eru í lifandi byggð til þróunar og uppbyggingar, hvort sem það er á sviði ferðamennsku eða einhverra annarra hluta. Það tapast að verulegu leyti í eitt skipti fyrir öll ef byggðin hverfur nema við höfum trú á því að menn fari að nema land á nýjan leik, sem er nú hægara sagt en gert í nútímanum að lífvænleg samfélög spretti upp í byggðum sem orðnar eru eyðibyggðir. Þær hafa mesta tilhneigingu til þess annaðhvort að tæmast alveg eða breyta um eðli og verða að sumarbyggðum, sem geta verið ágætar sem slíkar, en best er þó að þetta sé allt saman blandað og sem fjölbreytilegast.

Sé grundvallarspurningin sú sem svífur hér yfir vötnum, að það sé pólitískur vilji til þess að gera þetta, svarið sé yfirleitt já, erum við komin hálfa leið. Þá er umræðan fyrst og fremst um útfærslu, um það hvernig við gerum þetta með sem árangursríkustum hætti. Því auðvitað er mikilvægt og rétt og skylt, hér eins og annars staðar, að nýta fjármunina vel og ná árangri í þeim aðgerðum sem við erum að gera.

Hv. þm. Hjálmar Árnason nefndi m.a. umönnunarstörf og fleiri slíka hluti sem hafa skotið rótum og orðið til nýsköpunar í atvinnulífi á ákveðnum svæðum. Við getum tekið sem dæmi Suður-Þingeyjarsýslu þar sem ársverk skipta núna einhverjum tugum við umönnun. Þar er leyst úr brýnni þörf við aðstæður sem hafa reynst mjög hentugar, þ.e. ungmenni sem þurfa á aðstoð og stuðningi að halda og þurfa á langtímavistun að halda eru vistuð á heimilum í sveit þar sem er búskapur, þar sem er mjög verndað umhverfi og góðar aðstæður til að sinna þeim persónulega og þörfum þeirra. Þetta hefur gefist ákaflega vel og yfirleitt biðlistar eftir því að komast í þessa þjónustu. Það er einmitt eitt af því sem er útgangspunktur þessarar tillögu, samanber það sem segir í tillögugreininni:

,,Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, --- sem hv. þm. Jóhann Ársælsson lýsti eftir --- undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.``

Þarna er þetta í raun og veru allt saman undir eins og menn hafa velt ágætlega upp í umræðunum.

Ég endurtek það að lokum og að síðustu: Mér finnst að mönnum beri nokkur skylda til að taka í útréttar hendur ef þær eru í boði. Ef það er svo, sem ástæða er til að ætla eftir þessa umræðu, að það gæti orðið góð þverpólitísk samstaða um að vera þátttakendur í svona vinnu í samstarfi við bændasamtökin og aðra viðkomandi aðila ber mönnum nokkur skylda til að taka það til skoðunar að svo verði gert.