Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 18:53:44 (4057)

2004-02-10 18:53:44# 130. lþ. 61.17 fundur 202. mál: #A réttindi sjúklinga# (biðtími) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[18:53]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. formanns heilbr.- og trn., Jónínu Bjartmarz, um tillögugreinina þá er það svo að í lögunum um réttindi sjúklinga er nú þegar 18. gr. eins og hún stendur hér:

,,Þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skal læknir sem hann leitar til gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma og jafnframt gefa sjúklingi kost á bókun aðgerðar.`` --- Við leggjum til að til viðbótar komi setningin: ,,Miða skal við að bið eftir aðgerð sé að jafnaði ekki lengri en þrír til sex mánuðir eftir eðli sjúkdóms.``

Það er auðvitað verið að leggja hér til þessi mörk til að sjúklingur viti að hverju hann gengur, að hann þurfi ekki að bíða lengur en í sex mánuði eftir aðgerð ef til biðar kemur.

Ég nefndi áðan að biðlistar hefðu styst en auðvitað veldur það ákveðnum áhyggjum þegar fjárvöntun spítalans er ekki mætt og það vantar mörg hundruð milljónir upp á það. Hv. þm. segir að það muni ekki bitna á þeim sem eru að bíða eftir aðgerð. En við vitum nú þegar að aðhaldsaðgerðirnar koma niður á þjónustu Landspítalans, t.d. þjónustu við fjölfatlaða í Kópavogi þar sem búið er að lýsa því yfir að það eigi að leggja niður þá þjónustu. Það eru 55 manns sem eiga ekki að fá neina þjónustu þannig að auðvitað hefur maður áhyggjur af því að þjónusta verði skorin niður víðar en bara við fjölfatlaða, við vitum að það eru áætlanir um það þó að ég voni að það komi ekki til þess á endanum. En atriði sem hv. þm. nefndi varðandi fyrri hluta greinarinnar eru nú þegar í lögunum þannig að það er bara þessi eina setning sem við leggjum til að bætist við og að komið verði á sama umhverfi og er á Norðurlöndunum hvað varðar bið eftir læknisaðgerð.