Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 18:59:54 (4060)

2004-02-10 18:59:54# 130. lþ. 61.17 fundur 202. mál: #A réttindi sjúklinga# (biðtími) frv., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[18:59]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að heyra að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fer þessum lofsorðum um stefnu stjórnvalda og þann árangur sem hefur náðst í rekstri Landspítala -- háskólasjúkrahúss eins og á öðrum sviðum í heilbrigðiskerfinu og viðurkenning hennar á því að biðlistar eftir aðgerðum hafi styst er mér og öðrum stjórnarliðum sérlega mikils virði. En hv. þm. segir: við erum ekki að gagnrýna þetta eins og það er í dag, við erum á réttri leið en við erum að horfa til framtíðar. Aðstæður geta breyst og þá skiptir það sjúklingana máli að það standi í lögum að biðtími skuli ná einhverju hámarki.

Ég held að sé ekki ástæða til að ætla það eins og staðið er að stjórn heilbrigðismálanna í þessari ríkisstjórn. Hins vegar er ástæða til að kvíða því ef flokkur hv. þm. kæmist í ríkisstjórn, af því það er einungis sá flokkur einn sem hefur haldið því fram að það sé ekki fjárskortur sem hrjái heilbrigðiskerfið. En eins og er og undir forustu framsóknarmanna í heilbrigðismálunum, er ljóst að við erum sammála um að það er ekki ástæða til að setja þetta sérstaka ákvæði. Ef ég hins vegar væri á þeirri skoðun að það væri til þess fallið að auka rétt sjúklinga eða til að flýta aðgerðum, stæði ekki á mér að styðja þetta frv. En í rauninni er hún innantóm eins og aðstæður eru og þá má sleppa henni.