Svar við fyrirspurn

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 13:37:14 (4068)

2004-02-11 13:37:14# 130. lþ. 62.91 fundur 315#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Mér var fullljóst að hæstv. fjmrh. var með fjarvistarleyfi í dag en ég hefði talið eðlilegra að eiga orðastað við forseta þingsins um þetta mál vegna þess að hér er um tvö svör að ræða sem ég ber saman um sama efnið, þ.e. starfslokasamninga, og á svörunum er mjög mikið misræmi, annars vegar á svari frá hæstv. forsrh. frá því fyrir þremur þingum og hins vegar svari sem hæstv. fjmrh. gefur mér núna. Það skeikar 31 starfslokasamningi. Ég velti fyrir mér hvar þessi mismunur liggi og ég tel fulla ástæðu til að hér komi fram hvers vegna svona mikill mismunur er á þessum svörum frá þessum tveim ráðherrum.

Vissulega get ég átt orðastað við hæstv. fjmrh. á mánudaginn og það getur vel verið að ég geri það ef ég fæ ekki skýringar á því hvers vegna svona mikill munur er á þessum svörum. En það getur vel verið líka að ég þurfi þá að eiga orðastað við hæstv. forsrh. Það er ekki ljóst hvor fer með rétt mál þegar þessi svör eru borin saman.

Ég furða mig líka á því að ráðuneytin skuli ekki vera með þessar upplýsingar handbærar, sérstaklega iðnrn. Iðnrn. veitti ekki þær upplýsingar sem ég bað um en gat svarað mér fyrr í vetur hversu mikið starfslokasamningarnir við forstjóra Byggðastofnunar kostuðu. Þá lágu þessar upplýsingar fyrir þannig að þarna er auðvitað á ýmsan hátt pottur brotinn og ég tel að það þyrfti að fá nánari upplýsingar um þessi mál.