Svar við fyrirspurn

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 13:41:30 (4071)

2004-02-11 13:41:30# 130. lþ. 62.91 fundur 315#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Mér komu á óvart þessi viðbrögð frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni við því að hv. þingmenn forvitnuðust um hvort tiltekin svör væru eins og þau ættu að vera eða ekki. Það er ekkert óeðlilegt við það því að það er ekki einkamál þingmanna og ráðherra þegar verið er að svara fyrirspurnum, heldur hafa þingmenn ákveðna stöðu. Þeir eiga að veita hæstv. ráðherrum aðhald, spyrja þá út úr þegar það á við og þegar svörin eru ekki í lagi er það ekki einkamál þingmanna og ráðherra. Það er því ofur eðlilegt að hv. þingmaður komi hingað og leiti atbeina forseta. Forseti vísaði reyndar málinu í tiltekinn farveg en ég held að það sé alveg óþarfi að koma hér upp æ ofan í æ og gera lítið úr því alvörumáli þegar þinginu eru ekki veitt þau svör sem um er beðið eða það er a.m.k. dregið í efa að svörin séu rétt.