Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 13:51:17 (4073)

2004-02-11 13:51:17# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í kjölfar einkavæðingar bankanna leystist mikill kraftur úr læðingi. Bankarnir voru fljótir að bregðast við breyttum aðstæðum, samrunar áttu sér stað og miklar breytingar urðu á eignarhaldi margra fyrirtækja. Þessi uppstokkun var á margan hátt tímabær og til góðs fyrir íslenskt atvinnulíf.

Í bankakerfinu hefur verið minni samþjöppun en á mörgum öðrum mörkuðum. Bankarnir hafa að sönnu stækkað og eflst en tveir stærstu samrunarnir, annars vegar Íslandsbanki -- FBA og hins vegar Kaupþing -- Búnaðarbanki, hafa ekki leitt til umtalsverðrar samþjöppunar og hagræðingar á markaðnum. Staðan er að mörgu leyti ákjósanleg um þessar mundir. Í dag eru starfandi þrír sterkir viðskiptabankar sem allir eru í sókn og útrásarhug. Þessir bankar eiga að vera vel í stakk búnir til að þjóna íslenskum fyrirtækjum. Að undanförnu hefur verið töluverð samkeppni, sérstaklega í fyrirtækjaviðskiptum. Góð afkoma bankanna er nú í einhverjum mæli að skila sér til einstaklinga þó að vissulega þurfi þeir að gera betur í því efni.

Fjórða aflið á bankamarkaði er síðan sparisjóðir en þeir munu þurfa á öllum sínum styrk og samstöðu að halda til að geta keppt við viðskiptabankana.

Hæstv. forseti. Hvort frekari hagræðing eða samruni muni eiga sér stað á bankamarkaði er ekki hægt að segja til um. Hér togast á hið klassíska, að frekari samruni verði á kostnað samkeppninnar. Alþingi hefur sett lagaramma um slíkan samruna sem reynst hefur vel og engin ástæða er til að hrófla við á þessu stigi. Þetta er ólíkt sparisjóðamálinu sem snerist um hagsmunaárekstur á milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunar.

Lagarammanum við kaup á fjármálafyrirtæki má skipta í tvennt. Annars vegar getur samkeppnisráð ógilt samruna á grunni samkeppnislaga. Augljóst er af forúrskurði samkeppnisráðs frá árinu 2000 að ekki er mikið svigrúm til samruna í íslenska bankakerfinu. Hins vegar hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Þessum lagaákvæðum var ætlað að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra banka og eigenda þeirra. Nokkrum sinnum hefur verið gripið til aðgerða á grunni þessara ákvæða og hafa þau reynst vel. Ákvæðin ganga eins langt og bankatilskipanir Evrópusambandsins leyfa. Norðmenn hafa t.d. neyðst til að afnema þau ákvæði í bankalöggjöf sinni sem lúta að hámarki eignarhlutar í fjármálafyrirtækjum vegna krafna frá ESA. Á Íslandi er staðan núna sú að bankar og sparisjóðir eru í dreifðri eign, að Landsbankanum undanskildum.

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir að staðan á bankamarkaði sé að mörgu leyti góð, og skýr lagarammi til staðar, hef ég líkt og aðrir ráðherrar ítrekað að undanförnu að margt megi betur fara. Málefni viðskiptalífsins eru því til sérstakrar skoðunar í ríkisstjórnarflokkunum. Það er vitað að samþjöppun hefur verið mikil á vissum sviðum og margt bendir til að siðferði á markaðnum sé ábótavant. Kannanir benda til þess að almenningur telji siðferði í viðskiptalífinu lélegt og að viðskiptalífið njóti ekki trausts.

Sú þjóðfélagsumræða sem nú á sér stað bendir til þess að viðskiptalífið hafi farið of geyst og hoggið nærri íslenskri þjóðarsál. Í ljósi þessa velti ég vöngum yfir því hvernig stendur á því að hugmyndum er skotið fram um jafnróttækan samruna og þann sem er kveikjan að þessari umræðu. Viðskiptalífið verður að vera í tengslum við fólkið og það umhverfi sem það starfar í. Viðskiptalífið verður sjálft að taka sér taki og öðlast traust og trúnað fólksins í landinu.