Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:08:54 (4080)

2004-02-11 14:08:54# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Möguleg sameining Landsbanka og Íslandsbanka er athyglisverð. Alþingi hefur sett samkeppnislög sem gilda um slíka hluti, og ef til mögulegra samninga kemur mun Samkeppnisstofnun væntanlega fjalla um málið og úrskurða eftir þeim lögum sem hún starfar eftir. Það er ekki hægt að banna að bönkum fækki eins og kom fram í máli eins þeirra hv. þm. sem töluðu hér áðan.

Sameiginlegur Íslands- og Landsbanki verður mjög öflugur banki á íslenskan mælikvarða og verður hæfari til að þjóna stærri fyrirtækjum hér á landi, en staðan í dag er sú að stærri fyrirtæki þurfa í auknum mæli að leita til erlendra banka eftir fyrirgreiðslu. Þessi mögulegi sameiginlegi banki verður einnig betur í stakk búinn til útrásar. Aukin umsvif erlendis og stærri bankaeiningar ættu að stuðla að betri þjónustu og hagstæðari vaxtagjöldum.

Aftur á móti, ef af þessum samruna verður verða einungis þrjár lánastofnanir á markaðnum, þ.e. þessi mögulegi sameiginlegi banki Landsbanka og Íslandsbanka, KB-banki og sparisjóðirnir.

Ef stóra bankanum hefði verið leyft að gleypa sparisjóðina sem var ætlun þeirra yrðu einungis tveir bankar eftir á markaðnum. Það gæti leitt af sér færri afgreiðslustaði, þ.e. lakari þjónustu, og mögulega fákeppni.

Þá er það spurning hvort vextir mundu lækka eða hækka í þeirri stöðu. Það eru því bæði kostir og gallar við þessa mögulegu sameiningu en allt eru þetta bara vangaveltur því ekkert er vitað um það hvort Íslandsbanki vill sameinast eða hvort þessi umrædda sameining sé lögleg.