Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:10:51 (4081)

2004-02-11 14:10:51# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Gunnar Örlygsson:

Frú forseti. Á meðan samfélagslega ábyrgð er ekki að finna innan stóru fjármálafyrirtækjanna get ég ekki með nokkru móti talað fyrir því samþjöppunarferli sem hér er til umræðu, enda meira en líklegt að samruni stóru bankanna stangist á við lög. Skattumhverfi á Íslandi er ákaflega aðlaðandi fyrir fyrirtæki og má í raun segja að íslensk fjármálafyrirtæki hafi vaxið og dafnað í annars lítilli samkeppni hér innan lands. Af miklum hagnaði fyrirtækja á fjármálamarkaði hefur hlutfall skattgreiðslna verið mjög lágt. Aukin tækifæri hafa því skapast fyrir fjármálafyrirtæki þar sem úr meiri fjármunum er að spila.

Fjármálafyrirtæki hafa reynst mjög mikilvæg atvinnufyrirtækjum á landsbyggðinni, sameinað þau og leyst svo aftur upp með tilheyrandi afleiðingum þar sem óöryggi þúsunda samborgara er lagt á jötuna. Dótturfyrirtæki stóru fjármálafyrirtækjanna eru flest af sama meiði, innheimtustofnanir sem ganga hart að fólki í vanskilum. Þó eiga fjármálafyrirtækin sameiginlega fyrirtæki, og er hlutverk þeirra að draga svarta sauði í sérstakar réttir. Þjónustustigið er lakara. Trúin á einstaklinga fer dvínandi. Traust og hvatning til smærri og meðalstórra fyrirtækja hefur daprast en traust á risafyrirtækjum af erlendum toga er ekki vandamál.

Þrír milljarðar voru kreistir út úr íslenskum sjávarútvegi á dögunum. Mér er spurn: Hvað verður um þessa peninga, frú forseti? Sameiginlegt setur ætti að vera til í eigu bankanna, setur sem býður ungu fólki tækifæri en hér á landi er mikill fjöldi af ungu menntuðu fólki sem skortir tækifæri. Slíkt setur mundi fjármagna góðar hugmyndir, búa til hvata og drifkraft fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki. Það er grundvallaratriði, frú forseti, að gróðahyggjan víki í einhverjum mæli fyrir samfélagslegum sjónarmiðum.