Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:15:11 (4083)

2004-02-11 14:15:11# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:15]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Við höfum ákveðið að búa í markaðsþjóðfélagi og treysta á þau öfl sem þar búa að baki til þess að ná fram farsælum viðskiptum þjóðinni og almenningi til heilla. Við höfum lagt mikið upp úr því að útbúa hér samkeppnislöggjöf sem geri það að verkum, eftir því sem unnt er, að samkeppni skili neytendum og þeim aðilum sem fyrirtækin eiga að þjónusta góðri þjónustu og góðu verði.

Forsendan fyrir því að samkeppnisþjóðfélagið sé við lýði, hvort sem það er á fjármálamarkaði eða annars staðar í viðskiptum, er að samkeppni sé fyrir hendi. Til þess að samkeppni sé fyrir hendi þurfa margir aðilar að keppa hver við annan --- en eiga ekki hver annan. Ef þeir eiga hver annan eru það neytendurnir sem borga brúsann, þá er það almenningur sem borgar kostnaðinn vegna þess að samkeppnin er ekki fyrir hendi.

Þess vegna m.a. brást Alþingi mjög hart við áformum KB-banka og SPRON um að taka SPRON út úr sparisjóðakeðjunni og veikja hana sem samkeppnisaðila viðskiptabankanna því að það mundi leiða til þess að samkeppni yrði minni á fjármálamarkaði, og það mundi aftur leiða til þess að almenningur þyrfti að borga meira fyrir þessa þjónustu. Reikningurinn lendir hjá almenningi í þessu tilviki ef þessi fjármálafyrirtæki ná sínu fram um að draga úr samkeppni með því að stækka sjálfa sig út í það óendanlega.

Herra forseti. Það er kominn tími til þess að Alþingi sendi fyrirtækjum á fjármálamarkaði skýr skilaboð um það að Alþingi ætlast til þess að þeir sem þau eiga reki þau á viðskiptalegum forsendum með arðsemi að leiðarljósi en fyrst og fremst með arðsemi og ávinning almennings að leiðarljósi. Við munum aldrei þola það að stórir aðilar leggi hér allt undir sig, sjálfum sér til hagsbóta en öðrum ekki.