Áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 14:19:38 (4085)

2004-02-11 14:19:38# 130. lþ. 62.95 fundur 319#B áform Landsbankans um að kaupa eða sameinast Íslandsbanka# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég er í sjálfu sér ánægð með að hv. þingmaður og aðrir þingmenn Vinstri grænna eru ekki ánægðir með svör mín. Ég væri ekki á réttri braut ef þeir væru það, það vil ég fá að segja hér í upphafi. Þeir hafa verið á móti öllum breytingum sem hafa átt sér stað í viðskiptalífinu hvað varðar aukið frjálsræði. Það hefur komið fyrir í hvert einasta skipti sem hér hefur verið tekið á þeim málum að Vinstri grænir hafa verið á móti.

Þegar hv. þm. talaði um dreifða eignaraðild tók ég eftir því að hann vitnaði ekki til minna orða, enda hef ég verið algjörlega samkvæm sjálfri mér í þeim málflutningi. Ég ætla ekki að standa fyrir því hér á hv. Alþingi að sett hafi verið lög sem standist ekki ákvæði EES-samningsins, og ég vitnaði til þess í ræðu minni að Norðmenn hafa þurft að breyta sínum lögum vegna þess að þeir hafa sett í lög ákvæði um hámarkseignarhlut.

Það er í rauninni mjög mikil mótsögn í málflutningi hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar. Þeir segja annars vegar, og fullyrða það, að ríkisstjórnin ætli ekki að grípa til neinna úrræða, hún ætli að sitja úrræðalaus hjá, eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir orðaði það. Hins vegar eru höfð hér stór orð um mikilvægi þess að eftirlitsstofnanir séu sjálfstæðar (Gripið fram í.) og það hef ég lagt áherslu á. Það er ekki hægt að biðja um það í öðru orðinu að gripið verði til aðgerða og í hinu orðinu sagt að ég eigi ekki að skipta mér af eftirlitsstofnunum --- enda geri ég það ekki og mun ekki gera það, ég treysti þeim ákaflega vel. Þær hafa mikilvægu hlutverki að gegna á markaðnum.

Það eru fjórar stoðir í dag á fjármálamarkaði, þrír viðskiptabankar og sparisjóðirnir. Ég sagði í ræðu minni áðan að í raun væri sú staða mjög ákjósanleg. Hins vegar er það samkeppnisyfirvalda að taka til sinna ráða ef það kemur til sameiningar Landsbanka og Íslandsbanka. Það er ekki mitt hlutverk.