Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 16:27:49 (4098)

2004-02-11 16:27:49# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin. Ég vil samt fá aðeins betri skýringar á þessu með gjöldin í 9. gr. Í greininni stendur að það sé heimilt að innheimta þessi gjöld en undir lok greinarinnar stendur:

,,Gjaldtaka samkvæmt grein þessari skal í öllum tilfellum miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er og birt í gjaldskrám viðkomandi hafnar.``

Ég skil þetta sem boð um að menn eigi ekki að veita þessa þjónustu nema gegn fullu gjaldi.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er það skoðun ráðherra og hefur hann kynnt sér hvort önnur lönd séu að setja reglur með svipuðum hætti og hér er gert? Mér finnst mikilvægt að það liggi alveg ljóst fyrir. Það er augljóst að verulegur fjöldi skipa mun koma og fara frá löndum sem ekki hafa sérstakt eftirlit af neinu tagi í samræmi við þá lagasetningu sem hér er um að ræða. Ég vil því endurtaka það sem ég sagði í ræðu minni, að þá verða þau skilaboð að vera skýr. Við eigum ekki að segja fólki að eitthvert öryggi felist í þessu gagnvart hryðjuverkum á Íslandi ef það er ekki þannig. Þetta snýr að vöruflutningi að og frá landinu en ekki öðrum flutningum. Ég bið ráðherrann að leiðrétta mig ef svo er ekki.