Útgáfa rita um sögu stjórnarráðsins 1964--2004

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 10:39:05 (4106)

2004-02-12 10:39:05# 130. lþ. 63.1 fundur 511. mál: #A útgáfa rita um sögu stjórnarráðsins 1964--2004# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Þetta eru fróðleg svör, ágæti forseti. Þau skýra að vísu nákvæmlega ekkert og svara ekki því sem beðið var um svör við. Þó kemur í ljós að t.d. Sögufélagið er ekki útgefandi að þessu heldur í raun og veru merki fengið að láni, væntanlega fyrir einhverja þóknun sem ekki er tekin fram. Það kemur líka í ljós, að því leyti sem ég heyrði í hæstv. forsrh., að laun ritnefndar eru rífleg og eins og ætla mátti renna þessar 37,5 millj. kr. samkvæmt fréttatilkynningunni ekki allar til fræðimannanna. Þá eru það 24 millj. kr. þannig að það er nokkuð rausnarlegt miðað við þann taxta sem ég nefndi áðan.

Manni sýnist að bókaútgáfa ríkisstjórnarinnar með forstjóra sinn, hæstv. forsrh., setji út peninga og bjóði síðan af þeim sem hafa vilja eða þeim sem skammtaður er aðgangur og síðan gangi allir í þann sjóð. Auðvitað geta fræðimenn verið lengur eða skemur að semja sinn texta. Það sem skiptir máli er að ekki virðist hafa verið sýnd --- það kemur fram í þessari rakningu, munnlegir samningar, hækkun í hafi --- fyrirhyggja eða ráðdeild við útgáfu þessara rita. Nú er maður auðvitað dauðhræddur að spyrja hæstv. forsrh. spurninga sem hann hefur ekki fengið skriflega í þríriti og hafa gengið í gegnum ráðuneyti hans í mörg ár, en af hverju var þessi bókaútgáfa ekki boðin út? Hvernig stóð á því að hinn mikli einkavæðingarpostuli, hæstv. forsrh., bauð ekki þessa útgáfu út og fékk þannig þá ráðdeild og þá fyrirhyggju sem ætla má að markaðurinn hefði sýnt verkinu?